Stundum er maður alveg hrrroðalega stressaður. Þannig er ég búin að vera fyrir þennan dag. Vissi samt að ég hefði "einhvern tíma" milli mæðraskoðunar og stúdíós. Svo að lokayfirferðir og útprentanir á öllu þessu mikilvæga sem ég er að fara að gera í dag fengu að bíða fram á "síðustu stundu". Sem gerði það að verkum að ég var búin með alltsaman og orðin fullkomlega tilbúin og niðurpökkuð ofan í skólatösku tveimur tímum áður en ég átti að mæta neinsstaðar.
Góð ráð voru dýr. Hvað skyldi fá það óþvegið, af fyrirliggjandi?
Eftir að hafa huxað mig vel og vandlega um fattaði ég að ég sat í "skrifstofunni" eins og aukaherbergið heitir þessi árin, við alvarlega hættu á skriðuföllum fjalla úr hreinum þvotti, bókum og pappír hverskonar. Ég horfði huxi í kringum mig og ákvað að við svo búið mætti ekki standa.
Nú er hver einasta pjatla af fjölskyldunni komin á sinn lögboðna stað, nema það sem enn er óþvegið. Bókum og öðrum pappír hefur ennfremur verið raðar og staflað í þartilgerðar hillur og pappírsstaflar sem bíða flokkunar gera það nú þannig staðsettir að ekki stafi af þeim skriðuhætta. Og heldur er ég nú montin. Þetta hefur staðið lengi til. Og enn er klukkutími til stefnu.
Ekki skal ég þó þverþræta fyrir það að enn er líklega meirihluti heimilisins í megnustu óreiðu. Afstaða milli hluta er oftar en ekki órökrétt og fæst sem er í gólfinu á að vera þar. En ég skammast mín ekki baun. Við hjón erum búin að vera svo óstjórnlega dugleg utan heimilis undanfarið að það má alveg vera drasl. Gólfið er hvort sem er svo ljótt að það er bara betra að það sjáist ekki.
Mæðraskoðun var annars með öllu tíðindalaus. Ég er ekki með neinn blóðþrýsing af viti, frekar en venjulega. (Rannsóknarskip lét hins vegar mæla sinn í gær og á að fara í svoleiðis í hverri viku... virkar hann sem týpan sem er með háan blóðþrýsting...?) Ofurlítil Duggan virðist vera í réttri stærð, er með fínan hjartslátt og er farin að hreyfa sig engu minni er Freigátan gerði, þrátt fyrir að hafa farið rólega af stað í því. Þyngdaraukning Móðurskips, með öllu, er ennfremur algjörlega í neðra meðallagi. Það eina sem kom í ljós var að Móðurskipið er heldur lágt í járni, svo það er víst betra að fara að éta spínat og kjet.
Enda er komið hádegi, svo það er best að gera það undireins.
20.11.07
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli