18.11.07

Dagar...

Á miðvikudaginn verður dagur forvarna. Um daginn var dagur íslenskrar tungu. Svo þurfti líka í síðustu viku að halda upp á afmæli Astridar Lindgren og Jóns Sveinssonar. Konur hafa, að mig minnir, allavega þrjá daga á ári. Svo eru dagar geðfatlaðra, björgunarsveita, barna, gamalmenna... ég held það stefni í að allir þjóðfélagshópar, sjúkdómar, öll vandamál og allir minnihlutar verði komnir hver með sinn dag.

Nú hlusta ég mikil á Rás 1 þessa dagana, og mér finnst ekki líða þannig vika að ekki sé "dagur" einhvers. Og þeim fjölgar með hverju árinu. Alltaf eru fleiri og fleiri að gera eitthvað merkilegt, og deyja svo, og alltaf er verið að grafa upp fleiri og fleiri dauða snillinga og brúka afmælisdagana þeirra í einhver bráðnauðsynleg baráttumál. Og ekki skal ég mæla á móti því, flest eða allt eru þetta ógurlega merkilegir málafrlokkar og fólk sem verið er að halda uppá og vekja athygli á með öllum þessum dögum.

En fer ekki hinn venjulegi dagur að verða í útrýmingarhættu? Ég held að það þurfi hið snarasta að taka einn dag frá, sem þar og með verður kallaður Venjulegi dagurinn. Og það verður bannað að tileinka hann einu eða neinu. Þetta á bara að vera svona dagur til að fara í vinnuna, setja í vél, horfa á sjónvarpið og bora í nefið. Og ef hann þarf að miðast við einhvern þrælómerkilegan vikudag. Ekki mánaðardag því hann má alls ekki lenda á helgi. 
Þetta gæti til dæmis verið annar þriðjudagurinn í október, eða eitthvað þannig.

Ég held mest upp á venjulegu dagana. Þessa sem eru ekki tileinkaðir neinu og fara bara í daglegt amstur og ekkert sérstakt stendur til. Þeir eru bestir.

Engin ummæli: