23.11.07

M-Dagar

Nú eru Mánudagar og Miðvikudagar orðnir Meðgöngudagar. Var að skrá mig í Meðgöngujóga, sem ég fer í í hádeginu á M-dögunum, á undan bumbusundinu. Ég var búin að ákveða að þegar skólinn yrði búinn ætlaði ég þvílíkt að einbeita mér að því að vera svo innnnlifað ólétt að annað eins hefði ekki sést.

Enda bara um að gera. Nú eru ekki nema 2 mánuðir eftir af þessari óléttu sem ég hef annars lítið mátt vera að því að velta mér uppúr, og maður veit aldrei hvenær manns síðasta ólétta er upp runnin.

Ofurlítil Duggan er annars alveg steinhætt við að vera róleg. Þvert á móti held ég að hún sofi aldrei og hún er farin að sparka meira og fastar en ég man eftir að Freigátan hafi gert á sama aldri. Sem gerir það að verkum að mér finnst hún enn meira vera strákur. (Fordómar? Já.)

En nú þarf ég að afla mér upplýsinga. Um ýmislegt. Mér finnst ég hafa átt að eiga Inferno Dantes hérna einhversstaðar. Er að velta fyrir mér hvort ég á að nenna að leita hér, eða fara bara beint í hlöðuna til að finna út úr því. Okkur vantar svona Heimilis-Gegni. Sem segir manni hvaða bækur eru til, og hvar þær eru staðsettar í húsinu. (Þó það geti verið: "Á bak við hilluna í stofunni" eða "Undir náttborðinu hans Árna". Svo þarf ég að athuga samræmda vestræna stafsetningu á nokkrum arabískum orðum og komast að einhverjum aðalatriðum um Ottoman heimsveldið. (Kóranfjandinn.) Og er ekki enn byrjuð að þýða helv... viðbjóðsljóðin úr Blómum illskunnar eftir Baudelaire. Hefur annars nokkur dundað sér við að þýða ljóðin Til lesandans og Hræ úr þeim bálki, sér til skemmtunar? Ég á að gera einhverja tilraun, en hef bara ekki fengið andann yfir mig.

Altént gaman að það skuli vera föstudagur. Ástæðan fyrir nýlegafundnu dálæti mínu á föstudögum er reyndar tiltölulega áttrætt. Hún er sú að þá get ég hlustað á Óskastundina hjá Gerði G. Bjarklind á milli 9 og 10 á morgnana. Ég held það sé uppáhaldsútvarpsþátturinn minn. Óskalagaþáttur eldri borgara. 

Best að reyna að gera eitthvað, fram að sundi.

8 ummæli:

Elísabet Katrín sagði...

Ég á þessa fínu bók handa þér þar sem þú getur lesið allt um Ottoman-heimsveldið, hún heitir: World Civilizations - The global experience. Þú mátt bara renna eftir henni, er hætt að nota hana núna ;) Er voða fín bók um nánast allt markvert sem hefur gerst í heiminum frá 1450

Nafnlaus sagði...

Hei, kúl, hún er örugglega til í bókhlöðunni. Þetta hljómar einmitt eins og yfirlitsritið sem mig vantar!

Tengslanet akademíuhausa rúlar!

Elísabet Katrín sagði...

Ósman-veldið (the Ottoman Empire)
Stundum kallað Tyrkjaveldi
Öflugast; á hátindi á 17. öld
Réð yfir svæðinu frá Íran til Ungverjalands, niður með Rauðahafinu og norðurströnd Afríku.

Elísabet Katrín sagði...

Ég hugsa að þú getir fundið flest í þessari bók, nema það sem gerðist á Íslandinu góða ;) he he...Got að geta hjálpað oggolítið ;)

Nafnlaus sagði...

Grrr. Og Inferno Strindberx gerir víst ekki sama gagn og Dantes.
Bókhlaðan it is. Og þar á eftir Lánasjóðurinn. Þetta er að verða hinn "skemmtilegasti" dagur.
>:-(

Nafnlaus sagði...

Láttu mig vita ef þér tekst að finna svona heimilisgegni,- það hlytur þá að mega forrita hann til að finna nærbuxur í taufjallinu, ja eða skúra og henda ólesnum dagblöðum....
En þetta með sparkfordómana,- Bergþóra mín var langmesti sparkarinn minn, fékk marbletti eftir hana! Brynjólfur var lítið í sparkdeildinni,- hann hékk bara á hryggsúlunni og kom mér í 5 mánaða rúmlegu!!!Knús í kotið þitt, stórt til Gyðu sætu;-)

Nafnlaus sagði...

Þér hafið einkar vandaðan útvarpssmekk.

Ásta sagði...

Ég á alla hina guðdómlegu kómedíu frá því úr leiðslubókmenntum - en man ekki eftir þér úr þeim tíma. Kannski var hún kennd við önnur tækifæri. Annars er þér velkomið að fá hana lánaða hjá mér.