8.11.07

Dagur 2 i veiki

Eitt finnst Freigátunni enn leiðinlegra en að vera heima og vera lasin. Það er að þurfa að vera heima og inni en vera næstum ekkert lasin lengur. Hún var næstum hitalaus í morgun, en er ennþá með heilmikið hor og ljótan hósta, svo við verðum í stofufangelsinu í dag. Þá er nú vissara að vera með prógramm og dreifa sér eins víða og hægt er. Núna klukkan 10 erum við búnar að:
- Elda hafragraut og borða hann í eldhúsinu.
- Horfa á Pingú í stofunni.
- Skríða aftur upp í rúm og lesa ótal bækur og fara í bangsaleik.
- Fara inn á skrifstofu og brjóta saman allan þvottinn. (Freigátan sá reyndar aðallega um að halda skemmtiatriði sem fólust í því að setja nærbuxur annarra fjölskyldumeðlima á hausinn á sér. Sem klikkar aldrei... skemmtir Móðurskipinu reyndar minna þegar hún nær í þær óhreinu.)
- Fara inn á bað og dunda okkur þar heillengi við að setja í þvottavél.
- Og nú er verið að teikna. Sem fer þannig fram að Freigátan teiknar nokkur strik með trélitunum sínum en kemur síðan til Móðurskipsins og segir "óm" sem þýðir að ég á að teikna blóm eða "all" sem þýðir að ég á að teikna kall eða "ydda" sem þýðir að ég á að ydda litinn af því að hún var að enda við að bíta af honum blýið.

Móðurskipið er þegar orðið aðframkomið. Og innan skamms þarf líklega að finna upp á einhverju nýju. Ljóst er að það þarf að fara að hella uppá ef maður ætlar að meika það fram að hádegi.

- Jæja, Freigátan leysti verkefnavalsvandan sjálf í bili, heimtaði bruðu og fá að horfa á Línu Langsokk. Vel valið og sjálfsagt.

Ég er búin að vera svaka skipulögð undanfarið. Í verkefnavikunni bjó ég til ógurlega merkilegt textaskjal í tölvunni minni þar sem ég skrifaði skilmerkilega hvað ég þyrfti að gera hvern dag. Aðallega skólatengt, og stundum líka annað. Svo hef ég bara ekkert hætt þessu. Þetta er undarlega mikil útrás fyrir einhverja röðunarfíkn.

Allavega, dagurinn í dag er svona:
8.11. fi
Ritstjórn og fræðileg skrif, 9. verkefni - Ritfregn
Baudelaire - Inngangur

Og þetta verkefni gerði ég að mestu í tímanum í gær. En ég þyrfti að fara yfir þennan inngang fyrir bókmenntasögubókina. Svo ég fæ enga laggningu með Freigátunni í dag.
Já, það er víst alveg á hreinu að það þarf að hella uppá.

Og ef Alheimurinn lofar verður Freigátan leikskólafær á morgun, svo þá verður það Bókhlaðan!
(Sem auðveldaðist yfirferðar til muna eftir að ég lagði á mig að leita að lyftunni í henni um daginn.)

4 ummæli:

Berglind Rós sagði...

Ég sakna ykkar mæðgna, þarf endilega að fara að fá að sjá framan í ykkur, svona einhvern tímann við tækifæri þegar heilsufarið verður með skárra móti. Sendi batakveðjur til Gyðu og orkustrauma til mömmunnar.

Sigga Lára sagði...

Já, við þurfum að fara að gera hitt... ing. ;-)

Varríus sagði...

Meðan ég man. Fæ ég ekki að lesa leikritsþýðinguna?

Sigga Lára sagði...

Júbbs. Ég skal bara senda þér hana...