Ég var að vona að Freigátan yrði orðin leikskólafær í dag. Það var auðvitað brjáluð bjartsýni. Hún fékk mikinn hita í gærkvöldi og nótt var öll með hryglur. Ég fór með hana á barnalæknavaktina í morgun og í ljós kom alveg bullandi asmi og brjáluð eyrnabólga báðumegin. Hún er komin á sama pensillín og Rannsóknarskipið fékk við 15 ára stíflunni sinni (og finnst það ljómandi nammi) og púst (sem henni finnst ógeð.)
Hún er nú samt alveg ótrúlega kát núna, enda búin að fá að fara oggulítið út, og skoða dótið hjá barnalæknunum í Dómus, sem er nú alveg svakalega skemmtilegt. En hún heyrir náttúrulega næstum ekki neitt og getur ekki andað ennþá nema lítið.
Þar sem fjárlögum heimilisins hefur nú verið varið í heilbrigðiskerfið er vonandi að eitthvað fari að létta til í horbransanum. Eins gott að maður er búinn að vera skipulagðir. Ég þarf kannski svona tvær zetur í hlöðunni um helgina til að ná í skottið á sjálfri mér með það sem ég hef vanrækt af skólanum í þessari viku, og þarf kannski að gera aftur eitthvað af í næstu viku. En það er nú kosturinn við að menn séu komnir með meðöl, þá er svona nokkurn veginn hægt að treysta á sæmilegt heilsufar á meðan á því stendur.
Eins þurftum við aðeins að endurskipuleggja daginn, ég ætlaði að fara með Smábátinn upp á lansa eftir hádegið, hann þarf að fá hjartsláttarmæligræju og hafa í einn sólarhring. Hann þarf að hafa svoleiðis einu sinni á ári vegna hjartasjúkdómsins sem hann er með. En Rannsóknarskip fær frí eftir hádegið í sínum skóla til að fara með hann og ætlar síðan að bæta um betur og koma heim svo ég geti farið í bumbusund! Það er orðið gífurlega langþráð eftir heimaseturnar og svefnlausu næturnar í vikunni.
Já, þetta er að verða mjög mikið eins og sjúkradagbók. En það er nú mest til þess að fjarstaddar ömmur og aðrir áhugasamir geti fylgst með, og eins til upplýsingar fyrir þá sem alltaf eru að bíða eftir uppstyttu í horinu til að koma í heimsókn. (Og eins til afsökunar við þá sem við erum að bíða eftir uppstyttu í horinu til að heimsækja.) Og ekki síst fyrir öjmingja Huggu móðu sem má ekki koma neinsstaðar nálægt svo mikið sem horköggli og þá er hún lögst í einhvern ómeðhöndlanlegan fjára. Hún hefur þá vit á að halda sig í hæfilegri fjarlægð þegar ófremdarástand er.
Þá er Freigátan sofnuð, heyrnarlaus og hryglandi, og tekst vonandi að vinna upp eitthvað af nóttinni. Hún var alltaf að vakna og gráta, greyið, með uppundir 40 stiga hita, andarteppu og eyrnaverk.
Bezt að ég reyni að brúka timann af viti og læri.
9.11.07
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Aumingja litla skinnið. Heiða skilur hana vel. Vona að henni batni nú fljótt.
Sýklalyf eru góð.
Skrifa ummæli