17.1.08

Guð í Alnetinu

Smábáturinn tjáði mér yfir morgunmatnum í morgun, eftir vini sínum, að ef maður spilaði Pókemonlagið afturábak gæfi að heyra zatanískan boðskap. Ekki nóg með það, heldur var boðskapurinn orðrétt sá sami og sögusagnir gengu um, í minni æsku, að heyrðist ef maður spilaði Zeppelin-smellinn Stairway to Heaven, afturábak.

Í þann tíð var ég að vinna með slatta af ofsatrúuðu fólki í sumarbúðum Þjóðkirkjunnar á Eiðum, sem sumt hvert var alveg með hlönd fyrir hjörtunum yfir þessari sögusögn og óttaðist að hafa þegar beðið skaða af áheyrn lax þessa. Það bar við um þessar mundir að sr. Pétur Kristjánsson, nú Óháðasafnaðarprestur og faðir Pétrískunnar, vísiteraði. Málið var borið undir hann og hann hafði eftirfarandi um það að segja:
Það fer illa með plötur að spila þær afturábak.
Frekar snjall kall.

Ég heyrði þá kenningu reyndar seinna að þessum orðrómi hefði verið komið af stað af sölumönnum rafmagsgítara sem voru orðnir þreyttir á að heyra þetta glamrað, mis-illa, daginn út og inn. Spuringin hvort hitt er ekki bara komið frá foreldrum sem eru orðnir leiðir á Pókemon-laginu?

Ég sagði Smábátnum að þessi þjóðsaga hefði nú líka gengið í mínum ungdómi og sendi hann í skólann, með stórum minni áhyggjur af Zatni og félögum.
Vinurinn ku hafa haft þessar upplýsingar af Jútúb á internetinu.

Smábáturinn hefur ekki aðgang að alneti heimsins heima hjá sér. Enda er hann og hans 11 ára félagar nú bara rétt að byrja að sigta lygar foreldranna frá sannleikanum (jólasveininn og co.) en eru að hinu leytinu ennþá ógurlega auðtrúa, sérstaklega á ótrúlega og ólíklega hluti sem þeir hafa eftir einhverjum óljósum heimildum og utanaf sér.

Ég held að á meðan menn eru ekki búnir að koma sér upp sjálfvirkri kjaftæðissíu og tortyggni gagnvart upplýsingum sem hljóma ólíklega eigi menn alls ekki neitt erindi á alnetið nema undir ströngu eftirliti.

Skrifaði hún. Á alnetið.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er svo fyndið, við vorum nokkur í mínu ungdæmi sem reyndum að hlusta á eitthvert Bítlalagið afturábak því þar áttu að vera mögnuð skilaboð , ef ekki djöfulleg. Það rauk líka úr litlu aðdáendaheilunum okkar við að reyna að rýna í öll duldu skilaboðin á myndinni framan á Abbey Road plötunni. Hvað ætli Paul væri gamall í dag if........
Hulda

Nafnlaus sagði...

Ég stenst ekki mátið að grafa upp link á vídeó sem ég sá fyrr í vetur, þar sem fjallað er um það hversu auðtrúa við erum. Þar er meðal annars tekið fyrir djöflastefið í Stairway to Heaven með brilljant hætti. (Ca. 9 mínútur inn í fyrirlestrinum). Fyrirlesturinn sjálfur er hins vegar alveg þess virði að fylgjast með honum öllum.

Sjáum hvort mér text að vísa rétt á þetta: Fyrirlesturinn.