14.1.08

Ofurlítil Duggan - Spár og spekúleringar

Elísabet mágkona setti fram nokkuð flókna og tvíbenta spádóma í kommentakerfið um daginn, og spáði því að Duggan yrði drengkyns og kæmi í heiminn 4. febrúar. En sagðist um leið hafa litla trú á eigin hugboðum um svona mál, hennar hugboð segði henni að barnið yrði stúlka og myndi fæðast um eða eftir miðjan mánuð. Ég ætla að túlka þetta sem svo að ELó spái því að fæðist barnið fyrir "ásettan" verði það drengur, en stúlka láti hún eitthvað bíða eftir sér.

Það getur þá væntanlega brugðið til beggja vona ef Hulda Sónar Hákonar hefur rétt fyrir sér og hún fæðist á fyrirframumspáðum degi, þann 8. febrúar. En Hulda ku hafa með spádómi þessum hafa verið að sverma fyrir flottri kennitölu. 080208. Og þar með er krílið orðið í stíl við dóttur Hugleixformannsins sem mig minnir að sé fædd 070207.

Rannsóknarskip slær því annars slagið fram að barnið muni fæðast á afmæli Freigátunnar þann 28. janúar. Þar með er komin svakalega góð nýting á einn dag, eins og Rannveig Þórhalls gerði um árið, en mig minnir að báðir synir hennar séu fæddir 24. janúar, með 8 ára millibili.

Þegar Freigátan var farin að láta bíða eftir sér og virtist ætla að sneiða hjá öllum tyllidögum og fyrirframspáðum, þá spáði ég því að hún myndi fæðast 27. janúar, sem var ljóst að yrði gangsetningardagur. Þetta gerði ég til að koma í veg fyrir að hún biði svo lengi. Mér datt ekki í hug að þetta yrði til þess að hún biði þá bara einum degi lengur. Í ljósi reynslunnar finnst mér núna rétt að hafa í huga þriðjudaginn 26. febrúar. Nú eins og þá er ég sett á föstudegi, og nema vaxtarsónar sýni eitthvað tröllbarn myndi ég fá að sjá til með startkaplana fram yfir helgina. Gangsetningardagur yrði þá 25. feb. Og gerum svo ráð fyrir einum degi betur, en ef ekkert gengur á öðrum degi gangsetningar er framkvæmdur keisaraskurður, hvað sem hver segir, á Íslandi. Svo það verður aldrei seinna en þá.

Svo er það stjörnuspekin.
Líkur á steingeit fara minnkandi með hverjum deginum. Mestar líkur eru á öðrum vatsbera. Sem, ef það er skaphöfn í ætti við Freigátunnar sem hefur tekið uppá því að syngja allan daginn og vera síknúsandi alla, er alveg ljómandi. En 19. febrúar og síðar fáum við fisk. (Og það er kannski það sem Freigátan er alltaf að meina með því að endurtaka í sífellu setninguna og bókartitilinn: "Ég vil fisk".)

Kínverskur nýjársdagur er 7. febrúar þetta árið. Þá hefst ár jarðarrottunnar. Fyrir eru í fjölskyldunni vatsrottan Rannsóknarskip og eldrottan Smábátur svo þá yrðu rottur komnar í meirihluta í fjölskyldunni. Fyrir 7. er hins vegar ennþá ár eldsvínsins. Ég minnist þess nú bara varla að ég þekki svín, svo ég viti til. Svo það væri vissulega spennandi.

Svo þarf að spekúlera í nöfnum. Ég gæti eignast 12 stelpur á einu bretti og fundið nöfn handa þeim öllum. Annað mál er með stráka. Ég er búin að tjá Rannsóknarskipinu að sú ákvörðun hvíli á hans herðum... að mestu... ég held mig þó enn við að þverneita að skíra barnið Bónda. Þó hann fæddist á bóndadaginn. En Rannsóknarskip tekur engan þátt í svona spekúleringum fyrr en barnið er fætt. Og ég myndi svo sem ekkert skíra hvaða barn sem er hvaða nafni sem er. Ég reyni að ráða eitthvað í svip og karakter, eftir því sem það er hægt. Ef ég hefði verið fyrr á ferðinni í barneignum hefði ég sjálfsagt fallið að einhverju leyti í tískugildrur og skírt einhverjum furðunefnum. (Segi kannski ekki alveg út í Vanilla Blær, en hugsanlega meira í áttina að því.) Ég hef elst frá því, en samt kannski ekki alveg út í Harðgerði og Hrollaug. Einhvers staðar mitt á milli og alveg eins í hausinn á einhverjum, eða ekki. Af nógu er að taka í minni fjölskyldu þar sem ég hef afgerandi forystu í barneignum og nafnasjóðurinn er óplægður akur. En eitthvað verður maður nú samt að skilja eftir handa systkinunum, sérstaklega þar sem ég er búin að hirða ömmu-Freigátu. Það var hins vegar bara ekki hægt annað en að byrja á að skíra í höfðuðið á henni. Hún var búin að bíða eftir barnabarni í áratugi, meira að segja búin að fara í fýlu, selja allt barnadótið og prjóna sér dúkkur sem hún kallaði barnabörnin sín. Og svo prjónaði hún föt á þær. Ég er ekki einu sinni að ljúga neitt miklu.

Freigátan kom okkur annars frekar á óvart með því að vera nokkuð horlaus í dag eftir góðan nætursvefn eftir helgi með kvef og hitavelling og var drifin í leixkólann í morgun. Nú hefur sú skipulaxbreyting verið tekin upp að Rannsóknarskipi hefur verið eftirlátinn fjölskyldubíllinn og umsjón þess að koma henni í og úr leikskóla. Ég var ekki lengur að ráða alminilega við að troða henni í bílinn, sérstaklega ekki ef við vorum ekki alveg sammála um að hún væri að fara þangað. Stundum vill hún nefnilega fá að hoppa í öllum pollunum og elta ketti í hina áttina, og hefur ekki enn masterað rökrænt samhengi hlutanna að fullu.

Svo þá er bara að vona að ég missi ekki legvatnið í strætó. En hann tek ég núna allra minna ferða, eða semsagt í skólann og bumbuspriklið. Í dag er einmitt bumbuspriklsdagur. Jóga með sundi í eftirmat og solið labb til og frá og á milli. Jólastirðnleikinn er allur á undanhaldi og vonandi verður Móðurskipið farið að brokka um bæinn eins og ekkert c fyrr en varir.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

19. febrúar er afar fínn fæðingardagur og gasalega yrði ég nú glöð að fá svona vel ættað barn í ,,afmælisgjöf"! Fiskabörn eru værukær, róleg, blíð og ja jú frekar þrjósk en samt úrvals eintök...en 19. feb. færðu blöndu af vatnsbera og fiski,- firnagott því þá getur maður alltaf valið sér stjörnuspá dagsins eftir hagstæði þann daginn....
Knús ljúfan mín og haltu nú í þér fram yfir miðjan feb. Halla

Hugrún sagði...

Sá Árna í Pressunni á stöð 2 í gær. þar var hann í hlutverki foreldris barns sem var forsprakki eineltis. Fínt að æfa sig ekki satt!!

Spunkhildur sagði...

Þér er velkomið að nota þann 16. jan ef þú ert ekki með neitt sérstakt planað þá.

Reyndar fannst mér einstaklega ósanngjarnt hversu sjaldan ég átti afmæli þegar ég var lítil. Mun sjaldnar en annað fólk. Það er vegna þess að janúar er alltaf fyrst búinn??? Allavega voru það þau rök sem ég notaði og virkuðu fullkomlega rökrétt.

Siggadis sagði...

Humm... ég held að ég ætli bara að byrja að rembast og hoppa um þann 6.febrúar því þá er gamlárs á kínverskan máta, því ég á einn fyrir á gamlárs á íslenskan máta. Vissi ekki þetta með Rannveigu - assgoti heppilegt að hafa þetta bara á einum degi :-)

Annars segi ég alltaf að ef Vatnsberar réðu ríkjum í heiminum þá væru engin vandamál... Það mætti vel fjöldaframleiða þá enda miklir spekingar og vandamálaleysarar... ;-)

Sigga Lára sagði...

Freigátan er líka fædd á kínverskan gamlárs. Mar hoppar kannski bara líka? Svo við getum nú hæfævað á leið í bráðakeisara. ;-)