17.9.08

Það er að hvessa

athugaði tveggja ára dóttir mín, nokkuð skarplega, þegar við vorum á leiðinni á sundnámskeiðið hennar. Og nú er aftur komið mesta hávaðarok. Þetta er nú bara að verða eins og síðasta haust. Aftur. Vona bara að plágurnar endurtaki sig ekki.

Freigátunni er annars alltaf að fara fram að tala og oft hljómar hún alveg svakalega fullorðin og fyndin. Um daginn var pabbi hennar "ruglaður" og ég var "klikkuð." Ef ég svara ekki eftir nokkur "mömm" þá heyrist: Sigga Lára, á ég að verða rauð! (Rauð þýðir reið.) Og besta afsökunin fyrir öllu sem hún vill ekki/nennir ekki að gera, er: "Ég get það ekki, mér er svo illt í bakinu." En það lærði hún að pabba sínum þegar hann var í bakinu í sumar.

Stundum ruglast líka orð saman. Hún er mikið búin að vera að spekúlera í draumum. Þegar hún vaknar á morgnana og fer að tala um kisur eða eitthvað sem hana hefur verið að dreyma, þá hef ég verið að reyna að útskýra drauma fyrir henni. Á einum DVD diski heimilisins er síðan ódámurinn hann Kalli á þakinu að leika draug.
Um daginn heyrðist eitthvað þrusk frammi á gangi og Freigátan skreið upp í fangið á mér og sagði: Ég er hrædd. Það er draumur frammi á gangi.

Og ég held það sé enn að hvessa. Það ætlar bara allt um koll að keyra. Vona bara að svalavagninn sé nógu þungur til að hann fari ekkert mjög langt.

Já, og pabbi minn á afmæli í rokinu. Hann mjakast nær og nær eftirlaunaaldrinum en var nú samt að fá sér mastersgráðu í einhverjum hundleiðinlegfræðum af Bifröst um daginn. Hamingjuóskir með hvurutveggja.

Engin ummæli: