17.9.08

Spá og spé

Einkar ögrandi dagur í dag. Rannsóknarskip rétt kemst heim til að hleypa okkur Freigátu á sundnámskeið um kvöldmatarleytið og þarf síðan að fara aftur í vinnuna og halda einhverja foreldrakynningu. (Sem ég held að sé kynning á námi nemendanna fyrir foreldra. Ekki kynning á foreldrum.) Svo ég er óvenju einstæð og heimavinnandi í dag.

Góðu fréttirnar eru þær að klukkan er alveg orðin 10 og ég er ekki alveg búin að missa lífsviljann. Börnin eru dugleg að leika sér saman. Reyndar fylgir skemmtilegustu leikjunum ævinlega mikill hávaði. Vonandi er enginn að reyna að sofa í húsinu. Núna hleypur Freygátan æpandi fram og til baka og Hraðbátur er í göngugrindinni og öskrar úr hlátri. Einstaklega skemmtilegt hjá þeim. Og Hraðbátur merkilega brattur miðað við að hann var sívaknandi og grátandi í nótt. En nú held ég líka að önnur framtönnin sé ölla að byrja að koma úr kafinu.

Svo erum við búin að sópa og setja í þvottavél og uppþvottavél og förum alveg að drífa okkur út að athuga hvort vonda veðrið hefur ekki skilið eftir sig einhverja skemmtilega polla.

Annars fékk ég alveg svakalega skemmtilega Tarottspá í gær. Ég er alla jafna eiginlega alveg hætt að spá í spilin. Sennilega vegna þess að ég er byrjuð að lifa hamingjusöm til æviloka. En fékk mér samt "spá daxins" á Facade í gær, í einhverri rælni. Og það var bara ekkert nema "velgengni" og "fjárhaxlegir ávinningar" og "gríðarleg sköpunarorka" og ég veit ekki hvað. Og það sem gæti staðið í vegi fyrir mér væri að fá góða vinnu... Sem segir mér nú heilmikið.
Svo kom líka dauðinn. En það er alltaf ljómandi. Það er einhver viðsnúningur. Sem ég vona að sé að ég hætti endanlega að láta neitt í heiminum fara í pirrurnar á mér... ja, það má alltaf vona.


Engin ummæli: