Eftir kreppufárið síðustu viku er ljómandi fínt að eyða einum góðum veðurdegi inni í Bókhlöðu á námskeiði í neftóbaksfræðum. Nánar tiltekið, öflun og varðveislu munnlegra heimilda. Það er ljómandi. Maður veit ekki að umheimurinn sé til. Enda sýnist mér hann vera í helgarfríi frá kreppunni.
Var í gærkvöldi á stjórnarfundi hjá Bandalagi íslenskra leikfélaga. Þar bar nú ýmislegt nýstárlegt fyrir augu. Fundurinn í nýju húsnæði, ný ljósritunarvél sem kann að skanna fyrir utan nú það að þetta var minn fyrsti stjórnarmaður sem varamaður í stjórn en ekki ritari skrifstofu. Mikið var nú skrítið að sitja bara og drekka kaffið sitt á slíkum fundi og vera ekki að rita fundargerð jafnframt.
Já, það er gott að gera hluti bara eins og venjulega og losa sig út úr þessum hamfaralíkingum sem tröllríða öllu og öllum, sérstaklega ríkisstjórninni, þessa dagana. (Og mér finnst eiginlega óttaleg móðgun við alla sem hafa misst fjölskyldur sínar og raunveruleg verðmæti í slíkum.) Þetta fer alltsaman aldrei ver en á versta veg og það er langt í að við förum að sjá í botninn. Sérstaklega á meðan ríkisstjórnin hlustar ekki á hagfræðinga og hamast bara við að móðga fólk í útlöndum hægri og vinstri. Og, best að segja það einu sinni enn: Peningar smeningar. Þó ég sé búin að agnúast út í græðgisvæðinguna árum saman... sennilega bara síðan hún byrjaði, þá datt mér eiginlega aldrei annað í hug en að hún væri komin til að vera. Allavega ekki að ég ætti eftir að lifa að sjá hana drepast ofan í klofið á sér. Ég vona að menn nái sér fljótt og örugglega eftir áföllin sem nú eru að byrja að dynja yfir og sjái að sólin rís og hnígur sem fyrr, hvað sem gerist. Þá eru spennandi tímar framundan.
Tvennt langar mig að gera í dag. (Fyrir utan að halda áfram að sitja í bókhlöðunni í neftóbaksfræðunum með sérvitringasöfnuðinum.)
1. Mig langar að sjá það sem Snorri Hergill sagði um ástandið á Sky News í gærkvöldi.
2. Og ég hef aldrei á ævinni hlakkað jafnmikið til Spaugstofunnar.
Best að skreppa niður í kaffiteríu og gúlla í sig einhverju gómsætu.
11.10.08
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Já þú segir það, þú hefur meiri trú á Spaugstofunni en ég ;-) En það er sko aldeilis lifandis skelfingar ósköp gott að gera eitthvað allt annað en horfa á fréttir og fjargviðrast. Eins og til dæmis að viðra sig, almættið hefur alla vega séð aumur á okkur og sent okkur smá blíðu, ég segi bara takk fyrir það :-)
Skrifa ummæli