9.10.08

Ha-Le-Lú-Jaaaaaa

Undanfarið hef ég nú alveg átt erindi upp á bráðamóttöku geðsviðs, held ég. Ég er að verða endanlega fullkomlega geðveik. Kveikjuþráðurinn í mér er enginn. Ég man ekkert hver ég er eða hvað mér fannst einu sinni skemmtilegt. Ég er alltaf með að minnsta kosti eitt barn í fanginu. Og þegar ég þarf að sinna öðru fer hitt að grenja. Undanfarna daga er ég líka búin að fara að grenja oft á dag. Og það hefur nákvæmlega ekkert með kreppuna að gera. Þvert á móti er það góðærið og manneklan sem er alveg að fara með mig inn á deild. En á morgun er smá glæta í svartnættinu því þá gerist það:

Freigátan byrjar í aðlögun á leikskólanum!!!

Guð láti gott á vita og ég vona að blessað atvinnuleysið komi í veg fyrir að ég þurfi nokkurn tíma að bíða eftir að koma barni að á leikskóla framar. Það hið sama ætla ég líka að nota til að skrifa sjálfshjálparbókina fyrir heimavinnandi húsmæður: 
Þegar mann langar frekar að skjóta sig í hausinn heldur en að setja í aðra þvottavél.

Að lokum tvö gullkorn frá Freigátunni. Á leiðinni á sundnámskeiðið í gærkvöldi vorum við snemma í því. Ég tók þess vegna smá rúnt um hverfið hennar Habbýar áður en ég fór á Hrafnistu. Þegar ég beygði inn í eina götu sagði ég, hálfpartinn við sjálfa mig:
Já, hérna er Skipasund.
Eftir smá stund heyrðist úr aftursætinu: Mamma, ég vil fara á sundnámskeið.
Ég: Ha? Já, við förum þangað bráðum.
Hún: En ég vil ekki fara í skipasund.

Á leiðinni út var farið að dimma, en samt var enn smá birta á himninum og þar hjúfruðu sig nokkur ský.
Freigátan: Nú eru skýin að fara að sofa. Þau eru með sæng.

3 ummæli:

Berglind Rós sagði...

Æ hvað hún er yndisleg :-) Og já, það er mikið gott að geta sett yndislegu börnin sín á leikskóla, gangi ykkur vel á morgun.

Nafnlaus sagði...

Bið óendanlega mikið að heilsa Sóley, mér finnst hún alveg frábær. Og sundið er gott fyrir geðheilbrigðið. Veit allt um þá angist sem fylgir því að vera aldrei ein og sjaldnast með tvær hendur tómar ... ímyndaðu þér eitt augnablik að börnin séu bæði á brjósti í einu, bleyjuskipti séu alltaf í stereó og þriðja barnið sé tveggja og hálfs. En iss, nú er það allt saman löngu frá, ég pissa oft ein og hef oftar en ekki tíma til að lesa moggann.

Sigga Lára sagði...

Já, gott að heyra að þetta líður hjá og að maður fái kannski einhvern tíma að pissa án þess að einhver fari að grenja.