Þeir síðustu verða fyrstir. Bílbeyglan sem er gömul og beygluð er þó allavega skuldlaus. Kennaralaunin eru kannski ekkert spes, en Hagaskóli er vonandi ekki á leið á hausinn. Vonum það besta með Lánasjóð íslenskra námsmanna.
Svo gerði ég stuttlega vörutalningu á heimilinu í dag. Niðurstaðan var sú að ef kaupgeta heimilisins fer niður í ekkert nema lífsnauðsynjar, þá eigum við samt allt of mikið af drasli. Og þrátt fyrir þessi 150 kíló sem fóru í Rauða Krossinn í haust eiga allir á heimilinu meira af fötum en þeir komast yfir að nota.
Talað er um að við séum á leiðinni 30 ár aftur í tímann, svona í lífsstíl. Ó, mæ, goooood, kannski getum við ekki lengur eytt í hvað sem okkur langar í. Börnin mín koma kannski einhvern tíma til með að vita dóta sinna tal. Kannski verða leikjatölvurnar á heimilinu ekki mikið fleiri en þegar er orðið. Og mér finnst það fínt.
Umræðan er þegar farin að valda mér nostalgíu. Orð sem maður hefur ekki heyrt í háa herrans tíð. Verðbólga. Viðskiptahalli. Gjaldeyrisskortur. Og örugglega bráðum, atvinnuleysi.
Ég finn nú bara lykt af soðinni ýsu.
Hérna er ágætisúttekt á atburðarásinni og ástandinu.
Og hérna er bloggið sem gerir hagkerfisfræðin í þessu öllu saman allt að því skiljanleg.
Jæja, best að reyna að fara að koma einhverju skikki á heimilið
Það er búið að skipta Davíði út fyrir endursýningu á Singing Bee og Hraðbátur kominn inn á bað, fyrir eigin vélarafli. Það er líklega hans lengsta ferð, til þessa.
2 ummæli:
Hehe. Þið verðið nú í góðum málum samanborið við flesta aðra. Og við líka. Mikið er nú gott að hafa fengið svona uppeldi af gamla skólanum. Bara sparnaður og ekkert eytt í neitt bruðl, ha? ;)
Já, spurning hvort maður gengur enn lengra í næstu kynslóð og kennir börnunum sínum að treysta engum bönkun. ;-)
Skrifa ummæli