Ætlaði að fara að setja inn myndir af krökkunum, en komst að því að við erum bæði búin að vera einstaklega léleg að taka svoleiðis, og þær fáu sem tekist hafa eru einstaklega illa heppnaðar. Þar sem ég nenni ekki að setja inn myndir af hnökkunum á þeim, úr fókus, þá ætla ég bara að skrifa fréttir af þeim í staðinn.
Smábáturinn er orðinn meira Nexusnörd en ég hef nokkurn tíma verið, og er þá mikið sagt. Er einmitt núna að bíða eftir honum, en hann er þar á júkíó-móti en var uppálagt að leggja af stað heim ekki seinna en klukkan 5, þar sem hann á að mæta í flug norðuryfir klukkan hálfsex. Ekki er nú svo víst að hann verði svo kátur við sjónina sem kemur til með að mæta honum úti í garði. Þar eru nefnilega Rannsóknarskip og Freigáta að taka saman trampólínið. Reynar eiginlega vonum seinna, það stóð til fyrir nokkrum rokum síðan, en veikindi hafa þvælst fyrir. Allavega, þessarar gífurlegu skemmtigræju verður sárt saknað í herbúðum Smábáts og félaga. Ég er líka búin að vera mjög ánægð með hana, þó svo að það ískri í gormunum og allt það, því allt sem gerir það að verkum að unglingar á tölvuöld kíki annað slagið út fyrir hússins dyr er gífurlega jákvætt í minni bók. Og engin slys hafa orðið á neinum svo þetta er búið að vera hið besta mál. Smábáturinn er annars að taka allt sem hann á að vera að læra með trompi, sýnist mér. Skipulagsmál öll að komast í fastar skorður eftir sumarruglið, fyrir utan að ein og ein flík vill gleymast einhvers staðar á dularfullum stað. En það er nú alltaf verið að reyna að sporna við því.
Smábáturinn er annars orðinn mjög flinkur í ýmsu innan heimilis, til dæmis getur hann gert herbergið sitt eins og útstillingarbás í IKEA á engri stundu. (Það þarf reyndar oftast að minnast á það við hann... en ekkert meira en svo.) En hann er orðinn mjög hlýðinn og hvers manns hugljúfi. Hann er bara spenntur fyrir yfirvofandi fjölgun í fjölskyldunni og stendur á því fastar en fótunum að hann vilji fá bróður. Helst tvo. En svo skemmtilega vill til að hann er líka að fara að eignast systkin fyrir norðan, í mars. Mér finnst nú samt skemmtilegt að stríða honum á því að hann gæti líka alveg setið uppi með fjórar systur...
En það liggur allavega ljóst fyrir að með vorinu þarf að ná mynd af Smábátnum með öllum litlu systkinunum hans fjórum.
Freigátan er orðin svakalega dugleg á leikskólanum. Hún er farin að sofa þar alveg eins og heima hjá sér, í einn og hálfan til tvo tíma á dag, og grenjar núna víst bara rétt á meðan ég er að fara út úr dyrunum. Spurning hvort það lagast nú ekki einhvern tíma áður en hún verður sex ára. Hún málaði mynd um daginn, og límdi laufblöð á hana, og ekki var nú laust við að móðurhjartað ætlaði alveg að rifna úr stolti þegar ég sá myndina hanga uppi, hjá öllum hinum.
Hún er farin að vera svo dugleg að syngja, syngur Afi minn og amma mín og Allir krakkar, en maður þekkir lögin en ekki nema einstöku lykilorð úr textanum. Eins og rímorðin og mamma. Hún er fjarskalega dugleg að hjálpa til við húsverkin og finnst fátt skemmtilegra en að setja í þvottavélina og leggja á borð. Hún er svakalegur stríðnispúki og kippir þar í Hænuvíkurkynið. Oft er sá gállinn á henni að gera akkúrat öfugt við það sem maður biður hana um. Eins og þegar maður ætlar að klæða hana til að fara út, þá leggst hún gjarnan á forstofugólfið og þykist vera sofandi.
Henni finnst langskemmtilegast að leika sér úti og er mikið fyrir að sulla. Sér maður á því að oft kemur hún í aukafötunum heim, með hin alveg haugrennandi. Mér skilst að hún sé orðin mjög kát á leikskólanum og gangi mjög vel að leika við hina krakkana, enda verður hún stundum bara hálffúl að koma heim. Hún er samt alltaf að verða duglegri og duglegri að dunda sér sjálf. Hún á tvær tuskudúkkur sem eru í miklu uppáhaldi þessa dagana og stundum treður hún þeim í dúkkuvagninn og labbar með þær. (Stundum skammar hún þær líka og hendir þeim í gólfið.) Svo finnst henni alveg æðislega gaman að skoða bækur og láta lesa fyrir sig. Pabbi hennar ætlar að gera út henni ofurheila og hefur frá því hún var pínulítil verið að segja henni hvað stafirnir heita. Núna bendir hún á alla stafi og segir að þeir séu, a, í og bé. En mér þætti nú allt í lagi að hún byrjaði á að læta að tala, áður en hún fer að lesa.
Ofurlitla Duggan lætur lítið að sér kveða enn sem komið er. Ég sá reyndar á blogginu hennar Siggudísar að hún segist komin 6 mánuði á leið. Það þýðir að ég hlýt að vera komin næstum því það. Ég fékk eiginlega hálfgert sjokk. Mér finnst þetta vera nýbyrjað og miklu meira en nógur tími til alls. En þetta er alveg að bresta á og ég er alveg að verða einhent aftur. Annars ætla ég að fá mér meðgöngusjal og vona svo að Duggan verði svakalega róleg barn og verði til í að sofa bara á bumbunni á mér fyrstu mánuðina. Enn sem komið er er hún allavega voða róleg, virðist næstum alltaf sofa og lætur lítið á sér kræla. Rannsóknarskipi hefur ekki einu sinni tekist að finna almennilegt spart.
Jæja, best að fara að koma drengnum norðurum.
12.10.07
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli