Mikil heljarinnar hetja finnst mér ég nú jafnan vera á miðvikudögum. Þegar ég skelli 11 kílóa Freigátunni í barnastólinn á hjólinu, álíka þungri skólatösku á öxlina og hjóla svo um vesturbæinn þveran á leikskólann og að því loknu í háskólann. Bandólétt. Og næ oftast kaffi fyrir fyrsta tíma sem byrjar klukkan 10. Og er svo í tímum alveg nonnstopp til klukkan hálfsex. Og hjóla þá heim.
Að vissu leyti er ég algjör zúper á miðvikudögum.
Að hinu leytinu er ég í fríi.
Á miðvikudögum huxa ég nefnilega hvorki um þvottavélina né uppþvottavélina. Ég man ekkert hvort eitthvað vantar í matinn og ekki hvarflar að mér að velta fyrir mér hvað eigi að vera í kvöldmatinn fyrr en ég kem heim. Smábátur á sjálfur að sjá um sína píanóæfingu og Rannsóknarskip þarf að muna að sækja Freigátuna.
Á miðvikudögum er ég Ekki Húsmóðir.
Og þetta er alveg tjúllaður miðvikudagur, síðasti skóladagurinn fyrir kennsluhlé. Er búin að skrifa alveg snarmeinað og strangt prógramm yfir næsta hálfa mánuðinn og sýnist ég eiga að meika það svona rétt fyrir horn að klára allt sem á að skilast í þarnæstu viku.
Fékk líka svaka flotta græju til að taka viðtöl í útvarpsþáttinn minn, og tóxt meira að segja að finna út úr henni og fína klippiforritinu sem fylgdi með. Snugt.
Og, fyrst ég er að monta mig af tæknilegum framförum, mér tóxt í gær að láta vídjókameruna tala við tölvuna og ná leiksigri Smábátsins inn í fína kvikmyndagerðarforritið. Hélt að ekki yrði þá mikið mál að brenna hann á disk í framhaldinu. En eftir að hafa verslað þartilgerða diska í bóksölunni í morgun komst ég að því að ekki er algjörlega allt með felldu. Allavega spýtir hann Míka disknum út úr sér með ógeðssvip og segist ekkert geta gert þetta neitt. Svo enn bíður eitt tæknilegt vandamál úrlausnar og þarf eiginlega að leysast í kveld.
Spurning um að gá hvort ég get seifað "projectið" í einhverju öðru "formatti"?
Hmmmm...
Allavega. Ég held ég sé nú samt að sjá fram úr skipulaginu og er búin að setja vandlega inn í það að komast í alla bumbusundtímana í næstu viku! Sem hefur ekki gerst síðan skólinn byrjaði.
Í dag er annars mikill hátíðisdagur.
Við Rannsóknarskip höfum nú verið kærustupar í nákvæmlega 3 ár. Það eru líka 2 ár síðan við trúlofuðumst. Sem er í rauninni kannski ekki svo merkilegt, trúlofanir detta kannski úr gildi þegar maður giftir sig, en það er nú eftir sem áður eitt það alrómantískasta sem hefur nokkurn tíma komið fyrir mig.
(Og ef menn skyldu vera að velta því eitthvað fyrir sig, Rannsóknarskip á heiðurinn af allavega topp 50 af því rómantískasta sem hefur nokkurn tíma komið fyrir mig. Áður en okkar samgangur hófst var ég alvarlega farin að halda að rómantík væri öllum karlmönnum dauð. Reyndist Rangt, sem betur fer.)
Hins vegar verður eitthvað lítið um hátíðahöld þetta árið. Við erum bæði stressuð. Ég hundbissí og Rannsóknarskip að fara að fá fyrsta umganginn af foreldra- og nemendaviðtölum á morgun.
Bára syss (eða Ba frænka, eins og hún heitir hjá Freigátunni) er að koma á eftir. Verður hún á landinu fram yfir helgi. Held ég. Smábáturinn stefnir á norðurlandið um helgina, þannig að eitthvað verður um hrókeringar á heimilinu á næstu dögum.
---
Og nú er komið kvöld og ofurkonan er algjörlega að niðurlotum komin á samanammlinu. Komst að því að Leiksigur Smábáts er of stór til að komast á CDROM. Og smyglvarningurinn hefur ekki hæfileika til að brenna DVD diska.
Með það er ég farin að sofa, í fýlu.
10.10.07
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Ég veit ekki hvort ég á að vera feginn eða móðgaður yfir því að þú hringdir ekki í mig til að fá ráð. Ef þið eruð enn í vandræðum get ég örugglega hjálpað eitthvað.
hihi. Bílív itt or nott, það var næst á dagskrá. En ég held að ég sé samt búin að komast að því að tölvan mín er ófær um það sem ég ætlaði að láta hana gera...
Til lukku með daginn :)
Já, til lukku með rómantíkina, duglegheitin og bara allt :-)
Skrifa ummæli