14.11.07

Jólafýla

Á þessum árstíma fer ég að finna lykt.
Hún er af skítugum diskum. Með sósuleifum svínakjötsafgöngum. Súrum jólabjór sem maður hellir með ógeðsblandinni eftirsjá í skítugan vask. Og rauðum álaborg sem blandast saman við bússjúlei í sama vaski. Og svitalykt og táfýla.
Lyktir sem fylgja því að þjóna til borðs í jólahlaðborðum.

Jólahlaðborðatíminn hafði vissulega sína kosti. Það er auðveldara að vera með hlaðborð. Fólk fær sér sjálft á diskana og maður þarf ekki að vera alltaf að þvælast fram í eldhús og hlusta á kjaftháttinn (og kynferðislegu áreitnina) í fj... kokkunum. Það voru líka alltaf túristamiðuð fiskihlaðborð á sumrin sem voru draumur í dós. Maður þurfti varla að sjá nokkurn kokk og útlendingar tíma ekkert að drekka á íslenskum veitingahúsum. Létt og löðurmannlegt og allir komust yfirleitt snemma heim.

Þar brá hins vegar alltöðruvísi við í jólahlaðborðunum. Fátt er leiðinlegra en vinnustaðahópar, fullir af jólamat, jólabjór og bússjúlei, stundum þangað til þeir gubba. Maður þurfti gjarnan á allri sinni jólagleði og Mariu Carey að halda frá miðjum nóvember til þolláx, hreinlega til að halda geðinu og góða skapinu. Og mikið var maður nú alltaf feginn þegar þollákur rann upp, með skötulykt í staðinn fyrir jólað. Ekki að vita hvernig jólamaturinn hefði runnið niður hefði ekki jafnan komið til sú pása.

Ein tegund jólahlaðborðagesta var þó öðrum erfiðari. Kennarar. Komu jafnan úttaugaðir eftir önnina, undir lok eða í lok kennslu fyrir jól, og peruðu sig. Í sameginlegu spennufalli og ofsakæti yfir að hafa lifað af aðra önn á skítalaunum án þess að enda á geðspítala, urðu gjarnan úr þessu miklar matar- og drykkjuorgíur. Ekkert síður í hádeginu.

Mér datt þetta sisvona í hug.
Ég er að fara í jólahlaðborð með Rannsóknarskipi og samkennurum þann 1. des...
Huxa að ég keyri nú bara.

2 ummæli:

Hugrún sagði...

Já einmitt, ég kem og passa í þynkunni eftir að hafa jólahlaðborðað með kennurum úr heilum skóla. Þú veist þá í hvaða ástandi ég verð. Líklega þamba ég þeim til samlætis. Ekki veitir af, samningar kennara eru lausir næsta vor!

Spunkhildur sagði...

Maður þakkar fyrir hverja þá uppskeruhátíð íþróttahálfvita sem maður þarf ekki að þjóna í á ævinni.