16.11.07

Í tilefni dags íslenskrar tungu er best að hafa ljóð:
(Æfing í ritstjórn og útgáfu.)

Dauðinn gengur eftir veginum.
Hvern skyldi hann ætla að ná í núna?
Hann nær mér ekki því ég er á bíl.

(Höf. Rannsóknarskip, á barnsaldri)

Ég þarf trúlega líka að brúka daginn í þágu tungunnar. Skrifa fyrirlestur í þýðingafræði um byltingar í skjátextun og líklega væri líka snjallt að byrja á að skoða ljóðin Hræ og Til lesandans eftir Baudelaire sem ég lét gabba mig til að gera tilraun til að þýða. Þau eru bæði löng, bæði reglulega ógeðsleg, og ríma a-b-b-a í hverju erindi. Svo eru þau nottla á frönsku, en ég er reyndar búin að finna slatta af þýðingum á ensku til að hafa til hliðsjónar. 
Ég finn svakalega til vanmáttar míns og getuleysis. Nema kannski varðandi viðbjóðinn. Mér finnst þó erfitt að eiga að hafa hann ljóðrænan.

Við Freigáta erum að fara að rölta á leixkólann. Rannsóknarskip er á bílnum í dag þar sem hann fer með Smábátinn í flug norður á meðan ég verð í bumbusundinu. En þangað strætóa ég.

Ég hef alltaf gleymt að segja frá því, en mér finnst umræðan um ómöguleika nýja leiðarkerfisins (sem er nottla ekki lengur neitt nýtt) soldið fyndin. Síðan þetta kerfi kom gengur eini strætóinn sem stoppar rétt hjá mér, allt sem ég get mögulega þurft að fara. Hann gengur langleiðina út á Eyjarslóð þar sem Hugleikur á heima, í Háskólann og í Bumbusundið. Einu sinni þurfti ég síðan að strætóa í partí til Hrefnu Friðrix, og viti menn, hann gekk meiraðsegja þangað. Það eina sem hann gengur ekki er þvert yfir skagann að leikskóla Freigátunnar. En það væri nú líka bara ávísun á jafnvel enn meiri stækkun á þverveginn.

Og svo, þökk sé Villa, á ég núna ókeypis strætókort sem gildir í allan vetur.
Strætó rúlar!

Engin ummæli: