Mikið þekkti ég vel örvæntinguna í augum erlendu stúdentanna sem voru að villast um háskólatorgið í morgun og vissu ekki hvað sneri upp eða niður á tilveru þeirra. Það er nefnilega búið að afnema það eina sem gerði Háskóla Íslands afbragð annarra skóla á heimsvísu. Nemendaskrá, í fyrrverandi mynd, virðist horfin á vit forfeðra sinna.
Þetta var skrifstofan sem alltaf gat leyst úr öllum skráninga- og vottorðavandamálum. Eða sagt manni hvert maður ætti að snúa sér, ef maður þyrfti eitthvað flóknara. Fyrir vikið var að sjálfsögðu oftast röð út úr dyrum, sérstaklega í upphafi og lok annar, en maður vissi að á hinum enda hennar biðu lausnir á öllum manns vandamálum.
Áðan vantaði mig námsframvinduvottorð.
Ákvað að vera snemma í því. Var búin að fá upplýsingar í gær, fyrir tilviljun og eftir talsverðan villing, um að nemendaskrá ætti að vera einhversstaðar "niðri". Ég fór beint þangað í morgun, og giskaði á að ég þyrfti að fara í röðina sem var orðin löng (og full af ráðvilltum erlendum stúdentum) klukkan 9.15. Merkingarnar á téðu afgreiðsluborði eru þannig staðsettar að maður sér þær ekki fyrr en eftir um kortér í röðinni. Þá kemur í ljós að þarna er ekki aðeins afgreiðsla nemendaskrár, heldur líka einna fimm annarra skrifstofa, þ.á.m. alþjóðaskrifstofu og stúdentaráðs. Samt eru bara þrír að afgreiða, eins og á nemendaskrá áður. Tölvukerfið virtist alls ekki vera tilbúið. Það var bara hægt að prenta vottorð út úr einni tölvu. Annar posinn var frosinn. Og ég veit ekki hvar þeir hafa falið góðu konurnar sem eru búnar að vinna á nemendaskrá í hundrað ár, kannski rekið þær þar sem þær pössuðu ekki inn í nýju innréttingarnar. En greyin sem voru að vinna þarna gátu eitthvað lítið leiðbeint fólki, virtust ekki kunna alveg á tölvurnar, sem voru hvort sem var ekkert að virka.
Röðin lengdist og lengdist.
Þegar kom að geðvondu óléttu konunni gerði hún athugasemd við merkingarnar og skipulagið. Kenndi konunum hvernig maður lagar svona frosinn posa (slekkur á honum og kveikir aftur) en gat því miður minna gert fyrir tölvukerfið. (Allan tímann sat tölvumaðurinn fyrir framan eina tölvuna í símanum við mann sem síðan gaf honum samband við annan mann.)
Vorkenndi hræðilega erlendu stúdentunum sem einn af öðrum týndist ráðvilltari en hann kom út í morgunmyrkrið. Veit ekki hvort er verra. Að hafa byggingu með ótal pínulitlum skrifstofum sem hver um sig svarar aðeins í mesta lagi einni spurningu og engin veit hvað hinar gera, eins og var í háskólanum mínum í Frakklandi, eða eitt svona "þjónustuborð" sem á að leysa öll vandamál allra en virkar seint, illa eða ekki.
Hver skipuleggur líka svona vitleysu? Ef á að flytja og breyta skrifstofunni sem mest er að gera á í upphafi annar þætti manni nú gáfulegt að reyna að gera það á öðrum tíma. Og ganga almennilega úr skugga um að tæknileg smáatriði séu í lagi áður en lagt er af stað með látum.
Ég er næstum jafnfúl eins og þegar endilega þurfti að opna Bókhlöðuna á 1. desember, sem gerði það að verkum að þessari fáu skræður sem tilheyrðu háskólabókasafninu þurftu að geymast í kössum í aðal ritgerðavertíðinni. Ég sniðgekk kumbaldan sem best ég gat eins lengi og ég mögulega gat á eftir. Keypti jafnvel eða pantaði frekar bækur sem ég þurfti að nota í mörg ár á eftir.
En það er nú ekki alveg jafnauðvelt að sniðganga fjárans háskólatorgið.
Það inniheldur víst líka Bóksölu Stúdenta, en hana þarf ég að heimsækja fljótlega, líki mér betur eða ver.
Góðu fréttirnar eru þær að umsókn okkar hjónanna um fæðingarorlof er loxins komin í póst á leið til Hvammstanga, með öllum tilheyrandi vottorðum innanstokks. Vona ég.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli