8.10.08

Frá þeim sauðsvarta

Kæri Geir.

Ósköp ertu nú dramatískur þessa dagana. Og ógurlega er þetta nú allt saman erfitt. Og mikið er nú landið og allur hinn vestræni heimur kominn nálægt heljarþröminni. Þegar forsætisráðherrann manns kemur í beina útsendingu oft á dag, með tárin í augunum og öndina í hálsinum, þá liggur nú bara við að maður trúi þessu líka.

Ef þú hlustar vel heyrirðu hins vegar tvöhundruðþúsund manns yppa öxlum.

Ég fann nefnilega aldrei fyrir góðærinu þínu. Ég þurfti nú bara að spara og lifa af litlu og láta hýruna endast fyrir nauðsynjum í góðærinu eins og öllum þeim ærum sem á undan fóru. Ruglaði lánsfé ekki saman við eigið fé. Var þar að auki ekkert sérstaklega lánshæfur í lánabrjálæðinu. Ég sé ekki fram á að finna mikið fyrir hinu mikla hruni margburaturna fjármálaveldisins.

Það er ljóst að á næstunni verður kannski minna um vöruframboð og þjónustu. Það er allt í lagi mín vegna. Ég sá hvort eð var aldrei fram á hafa efni á að nýta mér allan fína góðærislúxusinn. Ég kann að taka slátur og sjóða sultu. Ég gerði mér alveg grein fyrir að fyrr eða síðar kæmi að skuldadögum. Þó það virðist vera að koma þér ferlega mikið á óvart.

Margir koma til með að missa vinnuna. En heima hjá mér er eitt barn sem ekki kemst inn á leikskóla vegna manneklu. Maðurinn minn vinnur myrkranna á milli við miklu meira en 100% kennslu vegna kennaraeklu. Áðan gengum við framhjá alpólskum götuvinnuhópi sem trúlega er á leið úr landi með næsta flugi vegna gengisfalls krónunnar. Blessað atvinnuleysið lúrir kannske á bak við næsta horn, albúið að gefa mér tækifæri til að klára nokkur leikrit. En ég er ekki farin að sjá það ennþá.

Þannig að, Geir minn, þú þarft kannski að "útskýra fyrir börnunum" í þinni fjölskyldu að þau fái ekki næstu kynslóð að playstation um leið og það kemur á markaðinn. Að það verði ekki nýr bíll úr kassanum á hvern ungling sem verður 17 ára og að jólagjafirnar í ár verði kannski undir fimmtíuþúsundkallinum. Heima hjá mér þarf ekki að útskýra nokkurn skapaðan hlut. Nema þá helst að börnin þurfi ekki lengur að fá frekjuköst yfir öllu draslinu í auglýsingunum sem þau fá ekki. Ef Guð (sem blessar alveg örugglega Ísland) lofar mun draga úr framboði og auglýsingum á óþarfa. Knús og kossar, upplestur úr góðum bókum og tími til skrafs og ráðagerða eru ekkert að klárast á mínu heimili og það er það sem skiptir mín börn mestu.

Ég þarf heldur enga sérstaka samstöðu eða viðhorfsbreytingu. Ég missti nefnilega ekkert sjónar á raunverulegum verðmætum og gildum lífsins. Ég var alltaf með það algjörlega á hreinu að allt það besta sem lífið hefur upp á að bjóða er ókeypis og að hamingjan er hvorki til sölu né kaups. Hið svokalla góðæri virðist hins vegar hafa gert marga menn vítlausa og mörg börn frek. Farið hefur fé betra og veri það bara um kyrrt hjá andskotanum til eilífðarnóns.

Svo, Geir minn, slappaðu bara af. Reyndu að bjarga því sem bjargað verður. Lestu bókina "Hver tók ostinn minn?" Ég vona að konan þín kunni að taka slátur. Hafðu ekki áhyggjur af því að orðstír Íslands bíði hnekki í útlöndum. Álit útlendinga á okkur, montrössunum sem reyndu að kaupa alheiminn, gat ekkert versnað. Svo er ég hvort sem er ekkert að fara að komast til útlanda næstu árin svo ég finn ekkert fyrir þessu.

Reyndu nú bara að taka þessu með ró. Hlustaðu á hagfræðinga og fjármálaspekinga. Og hafðu ekki taugadrullu yfir mér. Ekki hafðirðu áhyggjur af að ég væri útundan í góðærinu og þetta er nú asnalegur tími til að byrja á að muna eftir tilvist minni. Ég á eftir að gera heilmikið grín að ykkur, góðærispésunum, en þolið það nú alveg. Mér finnst mjög skemmtilegt að sjá ykkur hérna ofan í skuldahítinni hjá mér. Ekki er ég nú alfullkominn eða laus við örlítinn hefndarhug eftir kjaftæðið og lygarnar um "uppganginn" sem þú hefur boðið mér uppá undanfarin ár.

En almennt finnst mér bara gaman að þið skuluð vera komnir hingað niður á jörðina til mín. Vona bara að lendingin verði ykkur ekki að fjörtjóni og að bráðum áttið þið ykkur á því að hrun veldis Mammons á eingöngu eftir að verða okkur öllum til góðs.

Virðingarfyllst,
Sauðsvartur Almúginn

20 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Yndislegt bréf.
Skil ekki af hverju þú ert ekki forsætisráðherra! Þú er miklu mælskari en hann!
Sælir eru fátækir!
Og það eru alltaf tækifæri í öllum vandamálum.

Bkv.
Rannveig

GEN sagði...

Jamm. Ýmislegt til í þessu :-)

Nafnlaus sagði...

Það er aldeilis, ég vona bara að "Geir sem stal góðærinu" lesi þetta.

Nafnlaus sagði...

Hefurðu annars tekið eftir hvað hann er líkur Trölla sem stal jólunum?

Berglind Rós sagði...

Neinei við þurfum svo sem ekkert að kvarta, og ég get alveg tekið slátur og sleppt því að fara til að útlanda. En fólk sem hefur ekki bruðlað síðustu áratugina heldur sparað og lagt inn í banka til að eiga nú kannski varasjóð til hörðu áranna (þá er ég nota bene engan veginn að tala um sjálfa mig), ég get alveg skilið að það sé ekki alveg æðrulaust. Og sama á reyndar við um námsmenn í útlöndum, starfsmenn gjaldþrota fyrirtækja og fleiri hópa, ég get alveg skilið að þeim sé ekki rótt...

Berglind Rós sagði...

Já og peningar færa ekki með sér hamingju, en skortur á þeim getur hins vegar vel fært með sér óhamingju. En að öðru leyti er ég síðan alveg sammála :-)

Sigga Lára sagði...

"Ekki rótt" er eitt. En fyrr má nú rota en steindrepa með þessari dómsdaxumræðu.

Berglind Rós sagði...

Jamm það er síðan reyndar önnur saga...

Nafnlaus sagði...

Já, ég held að verðmætamatið eigi eftir að verða heilbrigðara hjá mörgum. Ég tapa úr fasteignarsjóðnum mínum en mun samt sofa róleg fram að helgi. Ég kaupi bara minni svalir þegar ég kaupi loks.

BerglindSteins

Berglind Rós sagði...

En talandi um dómsdagsumræðu og að róa fólk og landsfeður og allt þetta, hvar er forsetinn? Hefur hann enga skoðun á þessu öllu saman? Bara smá vangavelta... Annars ætla ég nú bara að fara og horfa á börnin mín og velta vöngum yfir því hvað þau eru falleg og góð :-)

Nafnlaus sagði...

Snillingur! Svo þarf bara að fangelsa eins og tuttugu til þrjátíu ótínda bófa þegar rykið sest - peningar eru auðvitað bara peningar en þegar öryrkjar og ellilífeyrisþegar verða fyrir barðinu á glæpamönnunum verður auðvitað að grípa til einhverra ráða. (Sbr bréf í nýrri færslu Egils Helgasonar). En ég er alveg róleg - hér er náttlega hefð fyrir því að taka hart á hvítflibbaglæpum - (bara svona að slá á létta strengi í tilefni dagsins) - takk annars fyrir þessa færslu sem var, grínlaust, holl lesning! Indra

Nafnlaus sagði...

Forseti vor hefur veitt þýskum dagblöðum tiltöl - hann er sammála Sigguláru og treystir á sauðkindina. Í framhaldi var það ansi stórt grín hérlendis að flötina fyrir fram Reichstag í Berlín mætti auðvitað þjóðnýta sem bithaga. Kannski næsta útrás liggi í markaðssetningu slátursuppskrifta?

Kv.
Agnes

Sigga Lára sagði...

Ég er viss um að við finnum eitthvað snjallt til að græða á næst. Og klúðrum því vafalaust jafnglæsilega. Á uppleið eða niðurleið erum við nefnilega alltaf stórasta land í heimi.

Elísabet Katrín sagði...

Er Geir búinn að vara þér?

Elísabet Katrín sagði...

úps...datt út eitt mikilvægt "s" hehe...þetta átti að vera: er Geir búinn að Svara þér? " ;)

Sigga Lára sagði...

Ekki enn. Hann hafði of mikið að gera við að þjóðnýta bankann minn. Ég er að vona að hann breyti nafninu alltaf. Ég treysti Búnaðarbankanum miklu betur en "Kaupþingi."

Sigga Lára sagði...

Ésús. "alltaf" átti að vera "aftur." Er einhver skrifblinda að ganga?

Unknown sagði...

Takk fyrir þetta. Prýðileg tilbreyting frá bölmóðnum.

Nafnlaus sagði...

Flott færsla. Þyrtfi hún ekki að komast á síður einhvers blaðs?

Berglind Rós sagði...

Og svo kom í ljós að forsetinn var löglega afsakaður. Það er ekki eitt heldur allt...