8.10.07

Meira Út!

Í dag var starfsdagur á leikskóla Freigátu, og hún þess vegna ekki þar, og þannig fékk ég afsökun fyrir að njóta enn frekar þessara rigningarlausu daga. (Sem eiga víst ekki að verða mjög margir.) Svo morguninn fór í fjöruferð. Það eyddum við morgninum í þá fornu íþrótt að henda grjóti í polla. Við mikla skemmtan.

Freigátan hefur hins vegar náð þeim þroska að átta sig á því að Það Er Ömurlegt Að Fá Ekki ALLT Sem Maður Vill. Því er hún farin að mótmæla kröftuglega þegar það kemur uppá. Og þar sem hún hefur mjög ákveðnar skoðanir á því Hvað Hún Vill gerist það nokkuð oft. Aukinheldur er skammtímaminnið eitthvað að lengjast, svo frústrasjónum lýkur ekki endilega um leið og næsti köttur kemur í augsýn. Þegar kom að hádegisblundi í dag voru komin um 10 frekjuflog í dag og sum bara nokkuð lífsseig. Þetta ku vera hið hræðilega tveggja ára tímabil, sem er að láta á sér kræla örlítið snemma. Mér skilst að þetta tímabil endist aldrei lengur en í um 4-5 ár í mesta lagi... Spurning um að fá sér eyrnatappa og fara að leita sér að húsi langt frá mannabyggðum?

Þessa dagana eru síðan í gangi samráðsfundir í bekk Smábáts og við eigum að mæta í svoleiðis seinnipartinn í dag. Verðum við þá leidd í allan sannleik um hvort gengið hefur jafnglimmrandi vel, og hvort hann hefur verið jafnmikil fyrirmynd annarra barna í góðum siðum, eins og hann segir. Eða hvort ástæða er til að flengja hann. Við erum full grunsemda. Það er allavega eitthvað alveg nýtt ef ekki kemur allavega ponkulítil athugasemd við eitt smáatriði. Smábátur ku vera nokkuð ræðinn í tímum sem ótímum. (Mætti þar halda að hann væri eitthvað skyldur mér, svona erfðafræðilega, sem hann er þó ekki nema mjög lítið. Ég er búin að gá í Íslendingabók.) En vonandi er þetta búið að vera jafnmikið eins og blómstrið eina, eins og hann segir. Ég er allavega mjög ánægð með hvað honum gengur vel í félagslífinu. Nú eru komin á nokkuð stabíl vinatengsl við nokkra drengi í nágrenninu, og oftast virðist síðan hægt að finna einhverja til að leika við þó krosstrén bregðist stundumm þurfi að heimsækja feður, ömmur eða annað skyldlið.

Ég er sjálf farin að breyta nokkuð um lögun. Núna hverfur bumban ekki lengur þó ég liggi á bakinu. Hún sést samt ekki ef ég er í úlpu. Ímynda ég mér.

Jæja, þetta dugar engan veginn. Best að nota tímann, taka úr þvottavélinni og reyna að læra eitthvað á meðan Freigátan sefur.

4 ummæli:

Siggadis sagði...

Ég var einmitt að huxa þegar ég sá þáttinn þarna breska ,,há tú lúk gúd neiked..." - það er ekkert mál að líta vel út á torfunni einni saman - svo lengi sem það er í myrkri... :-)

Spunkhildur sagði...

Þegar börn fara að hrýna af frekju er heillavænlegt að gefa sig ALDREI. Þó hunderfitt sé læra þau andfrekjulega hegðan með því að grenja sig í svefn. Þarna læra þau líka að nei þýðir nei, lexía sem allir ættu að kunna.

Sigga Lára sagði...

Nei þýðir nei-stefnunni er alveg fylgt. Enda finnst mér miklu erfiðara að láta undan. Enda er Það Sem Hún Vill gjarnan hlutir eins og "að fá ísinn sem hún sá í frystinum" (sem, ef maður lætur undan, verður aftur grenjað þegar hún fær ekki meira) eða "að fá að elta köttinn lengra" (og ef láta á undan því eins lengi og hvur vill, eltum við köttinn í svona viku).
Það, sem sagt, endar alltaf einhverntíma með grenji, svo það borgar sig ekkert að byrja á neinu öðru en því sem Æðstavaldið var búið að ákveða.
Þetta tímabil líður vonandi einhvern tíma hjá.

Elísabet Katrín sagði...

He he...best að gefast bara upp strax, þau valta hvort eð er yfir mann fyrr eða síðar ;)