5.11.07

35!

Í dag á elskulegur eiginmaður minn 35 ára afmæli. Í tilefni afmælishelgar sinnar tók hann heimilið í allsherjaryfirhalningu í gær og bauð mér síðan út að borða fyrir formúgu. Í tilefni afmælishelgar hans gerði ég lítið annað en að hósta og frísa og stressast yfir útvarpsþættinum, með flensu og frunsu, illt í öxlinni og grindargliðnun. (Og sjaldan verið fleira að mér í einu.)

Í dag, á sjálfan afmælisdaginn, ætlar Rannsóknarskip í vinnuna sína og koma síðan heim og passa Freigátuna á meðan ég fer upp á útvarp og næ vonandi að púsla saman þættinum mínum á tveimur tímum. (Sem er eins gott að er ekki sjóvarpsþáttur. Þetta er engin smá frunsa.) Svo það verður ekkert sérstakt um dýrðir. En ég meika þó vonandi að kaupa handa honum afmælisgjöf á leiðinni heim. Og kannski köku. Annars er ég alveg eins og draugur upp úr öðrum og Freigátan er líka með ljótan hósta og þykkt hor.

Afmælisbarnið er þó allavega við hestaheilsu, enda á pensillíni og sterum. Sem er að virka ljómandi vel, ef marka má hina ljómandi dugnaðarlegu endurskipulagningu sem fór fram á heimilinu í gær.

Annars er helst í fréttum að í dag er líka síðasti í vetrarfríi hjá Rannsóknarskipi og Smábát og sá síðarnefndi kemur væntanlega heim í kvöld. Leikskóli Freigátunnar er líka lokaður í dag.

Það verður mikill áfangasigur að verða búin að koma þessum útvarpsþætti heim og saman. Ég komst að því að mig vantaði hreint ekki tónlist í hann. Ég var bara með vítlausan teljara í klippingaforritinu, svo allt var miklu lengra en ég hélt. Þannig að þátturinn er aðeins of langur, eins og er, en það fer eftir því hvað ég verð lengi að öjla út úr mér kynningum í stúdjóinum hverju ég sleppi. Og ég veit ekki hvenær hann verður á dagskrá, en síðast þegar ég vissi var ekki enn búið að spila þættina sem voru gerðir í þessum kúrsi í fyrra, og það stendur til að gera það á undan. Svo... eftir svona tvö ár?

Á morgun verðum við Freigátan svo vonandi báðar nógu hressar til að fara út úr húsi, þá ætlar hún á leikskólann og ég í bókhlöðuna og fara þar um eins og hvalavaða og finna heimildir um hann Baudelaire og aðallega Blóm illskunnar. Og gera síðan allt hitt sem er búið að sitja á hakanum. Annaðhvort það eða sitja heima og halda áfram að hósta upp lungunum. En það verður þó allavega hægt að gera það í íbúð sem er svo hrein og fín og haganlega endurskipulögð að það mætti halda að það væru að koma jól. Án þess að ég hafi gert neitt til þess.

Ég er afskaplega vel gift.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Smelltu endilega kossi á bóndann frá mér (en bara mjög settlegum, því ekki vil ég eiga á hættu að koma upp á milli ykkar hjóna).

Nafnlaus sagði...

Alveg sammála að þú sért vel gift og hann vel kvæntur...til hamingju með hvort annað og knúsaðu Rannsókaskipið Árna Friðriksson frá mér og Gyðu og smelltu einum á þig og smábátinn í leiðinni!

Sigga Lára sagði...

Ég skal skrifa allt þetta kossaflens niður, en engu af þessu verður komið til skila fyrr en helv... frunsan er horfin á braut!