27.1.08

Ammli


Freigátan á afmæli á morgun og í dag var haldið örlítið kaffisamsæti fyrir nánustu ættingja hennar á svæðinu og vini. Þar sem Móðurskipið er svo ólétt tóku menn svo rækilega með sér í veisluna af veitingum að mér sýnist við geta bæði skírt og fermt án þess að baka nokkurn skapaðan hlut. Sú stutta eignaðist eitt og annað í tilefni daxins. Fyrstu dúkkuna sína í barbíforminu, dúkkuföt, leir, fisher præs landbúnað, púsl og ýmis föt. Til dæmis stígvél með hauskúpum á. Það er búið að leika sér vel og rækilega með alltsaman, máta fötin mikið, leira, púsla og borða. Enda er hin næstum tveggja ára snót nú orðin uppgefin og er á leið í bólið, núna bara í fréttunum.

Svo er bara galið veður. Og hvert fór snjórinn?

Móðurskipið ætlar að reyna að taka því einstaklega rólega í kvöld, enda svaka bissí dagur á morgun. Mæðraskoðun, sjúkraþjálfun, jóga og sund. Vonandi verður búið að hlýna enn meira, því allavega helminginn af þessu þarf ég að fara gangandi og nenni síst að vera fljúgandi á hausinn á þessu stigi málsins. Sérstaklega nú þegar ég er öll að hætta að vera hreyfihömluð, farin að geta hlegið og næstum hóstað pínu án þess að finnast ég vera að fara úr rifjunum. Er komin með kenningu um að einn "rif"-vöðvi hafi verið tognaður. Og hafi því ekkert verið að batna á meðan ég var alltaf að reyna að hita hann upp og teygja hann. Heldur bara þegar ég fór að hvíla og kæla hann. Svona er þetta. það er víst ekki hægt að laga alveg allt með líkamsþjálfun.

Úff hvað maður er sybbinn. Best að borða meiri súkkulaðiköku.

PS. Nei, annars. Freigátan er greinilega þeirrar skoðunar að hún sé orðin unglingur og vill fá að vaka frameftir og halda partí. Hún liggur allavega enn syngjandi hástöfum í rúminu sínu, og klukkan orðin meira en níu. Held hún sé meira að segja búin að svæfa pabba sinn. Það verður gaman að reyna að koma henni á lappir uppúr sjö á sjálfan afmælisdaginn...

4 ummæli:

Elísabet Katrín sagði...

Til hamingju með afmælið Gyða frænka :) og líka hamingju óskir til ykkar hinna ;) knús til ykkar í rokið :) hafið það gott.

Berglind Rós sagði...

Til hamingju með tveggja ára afmælisskvísuna

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með Gyðuna þína Sigga Lára mín,- hún virðist bara fríkka með hverjum aldursáfanga,- hvernig endar þetta??
Vona að þú gefir henni ekki systkyni í afmælisgjöf...það er hentugt fyrir foreldrana en hundleiðinlegt fyrir afmælisbörnin;-) Knús og kram, Halla

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir. Nei, ekki eru neinar blikur á lofti með endurnýtingu afmælisdax. Hin verðandi móðir kennir sér ekki nokkurs skapaðs hlutar og er nú bara á leiðinni í alla líkamsræktina, í hálkunni.