31.12.09

2009

Árið var hafið í Brekku, Eyjafjarðarsveit, við undirleik flugelda.

Síðan var haldið í bæinn að gera byltingu, við undirleik búsáhalda.

Svo urðu yngri börnin 1 og 3ja ára.

Móðurskip vann á Bjartinum alla byltinguna og fram undir vor. Kláraði svo M.A. gráðu hina síðari og fór með hana á atvinnuleysisbætur. Fór á leikritunarnámskeið í Færeyjum í maí og í Svarfaðardal í júní. Það var gaman. Ákvað í framhaldinu að missa 20 kíló. Verkefni sem nú er hálfnað með dyggri aðstoð félaganna hlaupa og Herba. Hljóp 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Sem telst óneitanlega til stórtíðinda.

Ákvað um svipað leyti að fara í doktorsnám og rannsaka samfélagsádeilu í leikhúsi fyrir og eftir hrun. Og byrja líka að læra til trúbadors. Bæði verkefni eru í farvegi.

Rannsóknarskip var í feðrunarorlofi fram á sumar. Hóf síðan á ný að kenna í skóla Haganna með haustinu hvar Smábátur hóf einnig nám eftir að hafa lokið námi við Vesturbæjarskólann um vorið. Una feðgar hag sínum vel á þeim bænum, að mér heyrist.

Í haust hóf Hraðbátur nám sitt, settist á leikskólabekk í smábarnaleikskólanum Sólgarði, sem er háskólaleikskóli. Hann kann gríðarlega vel við sig, en missti heilmikið úr síðla haustmánaða sökum langvinns heilsuleysis, sem þó snöggskánaði þegar rörabúnaður var lagður í eyru honum.

Freigáta hélt áfram á Drafnarborg og hefur verið hraust allt árið og hinn mesti dugnaðarforkur. Að loknu sumarlayfi flutti hún af litludeild yfir á stórudeild og vonandi fær Hraðbátur pláss á sömu stofnun á hausti komanda.

Hvað gerðist fleira?

Allir uxu heilmikið. Nema Móðurskip sem óx og minnkaði svo heilmikið aftur. Og vonast eftir frekari rýrnun á komandi mánuðum.

Á leikvígstöðvunum lék Smábáturinn frumraun sína, ja svona allavega í fullri lengd, með Hugleiknum. Móðurskip aðstoðarleikstýrði hinu sama verki, Ó þú, aftur, sem sýnt var á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins síðasta vor. Eitthvað meira var nú sjálfsagt einþáttungast... ég bara man það ekki, nema hvað við hjónin áttum bæði þætti í jóladagskrá Hugleiksins nú í desember.

Sumrinu var varið í austrinu og norðrinu að venju.

Þetta er nú allt í belg og biðu hjá mér.

Sennilega var þetta bara frekar venjulegt ár, svona innan heimilis. Ef ekki væri til sjónvarp og internet hefðum við ekkert tekið mikið eftir neinni kreppu, sosum. Ekkert minni peningar en venjulega, bara.

En samkvæmt kínverskri stjörnuspeki verður komandi ár arfaskítt hjá okkur hjónum báðum. En það byrjar ekki fyrr en 14. febrúar, svo, den tid den sorg.

Árið komanda hefjum við á Egilsstöðum, undir fullu tungli og rakettureyk.

Gleðilegt, ár, takk fyrir það gamla. Og allt það.

28.12.09

Hlandfata ársins?

Voða væmið alltaf þetta „Maður ársins.“ Þessi er búinn að standa sig svoooo veeeel... bleblebleeee. Allir í fyrirframnostalgíu og vellingi. Afsakið meðan ég æli.

Starta hér með annari kosningu og miklu meira spennandi.

Hver er Hlandfata* ársins?

* Hlandfata: (skv. orðabók Hálfvitanna) leiðinlegur OG óheiðarlegur einstaklingur. (Annaðhvort er ekki nóg.)
Af nógu að taka!

Einhver?

24.12.09

Gleðileg jól...

...og farsælt komandi ár...
...þökkum liðið...
...bestu jólakveðjur...
frá flotanum á Ránargötunni.

23.12.09

Er stemming í bænum?

Ég er ekki frá því að félag kaupmanna á Laugaveginum hafi gert einhverja ógurlega samninga við Kastljósið. Samkvæmt því er "svaka stemming" á Laugaveginum og menn "láta kuldann ekki á sig fá."

Ja, það var alveg stemming í friðargöngunni, sko. Magnað að hlusta á predikun Einars Más á Austurvelli. En kuldinn "fékk nú samt alveg á" menn, og í bakgrunninum á Kastljósinu sér maður nú aðallega fólk að flýta sér og viðmælendur eru með munnherkjar. Þetta er kannski líka svona "stemming" eins og þeir segja alltaf að sé á menningarnótt og 17. júní, þegar það þýðir að maður kemst hvorki afturábak né áfram fyrir fólki, sér engan sem maður þekkir og kemst ekki að til að sjá neitt sem mann langar.

Alltaf sama haugalygin í þessum fjölmiðlum. Á Þorláksmessukvöld er ekkert endilega "mesta stemmingin" í því að vera enn að versla.

Hér er bara verið að tjilla. Markvisst byrjað að seinka háttatíma yngri kynslóðarinnar "örlítið". (Stefnum á að fá hugsanlega að sofa alla leið til 8 á morgnana yfir hátíðarnar.) Rannsóknarskip rannsakar eftirrétti. Hann fær að sjá um það á aðfangadagskvöld, þetta árið.

Svakalega er jólalegt á Egilsstöðum. (Ef Kastljósið er þá ekki að ljúga því.) Og Kiddi Vídjófluga er nú alltaf heimilislegur. (Nú fer ég bráðum að grenja úr heimþrá.)

En hér er allt bara ferlega tilbúið. Smábátur er í útláni hjá afa sínum og ömmu og kemur heim á morgun. Við erum bara að bíða eftir því að The Nightmare Before Christmas byrji í RÚV (Ekki að hún sé ekki til hérna í tveimur eintökum og miiiikið spiluð allan ársins hring...) og ætlum að horfa á hana áður en börn verða barin í bólin.

Jólakortin fóru ekkert í ár.
Jólakveðja birtist hér einhverntíma á morgun eða hinn.

22.12.09

Jólafýla og meðvirkni

Ég las einn magnaðasta jólafýlupistil sem ég hef lengi séð, um daginn. Hann Björgvin Valur (sem mér finnst reyndar oftast snjall) vill meina að aðventan dragi fram dauðasyndirnar 7 í öllum.

Þetta viðhorf hef ég oft heyrt. Og einu sinni var ég líka mjög á þessari skoðun. Þangað til ég fór að skoða málið. Komst til dæmis að því að þetta ætti ekki við um sjálfa mig. Mér þykið aðventan alveg æðislegur tími, en ég leggst ekkert í leti, ét ekki yfir mig, eyði ekki um efni fram, frekar en endranær, og stunda á flestan hátt sömu lifnaðarhætti og venjulega. Ef eitthvað er dunda ég meira með börnunum mínum, ég tek reyndar til fyrir jólin... aðallega vegna þess að það er ekki vanþörf á, og svo reyni ég að komast á einhverja tónleika, bókaupplestur eða annað menningartengt, kannski, einhverntíma. Og þegar ég hugsa út í það þekki ég engan sem hagar sér á þann hátt sem jólafýlupúkarnir fjargviðrast yfir. Þekki engan sem ekki les jólabækurnar sínar upp til agna. Upplifir desembermánuð á óhömdu neyslufylleríi með sjálfsásökunar og stresskryddi.

Ég hef líka tekið eftir því að jólafýlupúkarnir undanskilja oftar en ekki sjálfa sig. Jólastressið sem allir eru að tala um býr líka aðallega í útvarpinu. Jú, það eru kannski margir í kaupfélaginu og kringlunni, síðustu dagana fyrir jól, en mér sýnast nú yfirleitt flestir vera glaðir, bara. Og gjafainnkaup held ég að snúist hjá fæstum um að græðga á visa allt flotta dótið sem þeir hafa séð auglýst. Mest gaman er að finna eitthvað einstaklega snjallt (og helst verðlagt innan skynsamlegra marka) handa hverjum, sem viðkomandi vantar og langar í, án þess að hann viti það. Svoleiðis gjafir er líka mest gaman að fá.

Staðreyndin er sú að neyslufíklar, í hvaða neyslu sem er, nota öll tækifæri til að ofneyta. Hvort sem menn eru alkar, kaupalkar eða átfíklar. Þeir nota aðventuna sem afsökun. Eins og alla aðra tíma. Og það verða þeir sjálfir að gera sér grein fyrir og díla við.

En svakaleg má nú vera meðvirkni samfélagsins ef menn vilja helst leggja niður aðventuna til að forða þeim frá freistni?

Takk fyrir ábendingarnar!

Síðasta fyrirspurn bar gríðarlegan árangur, tillögur hrönnuðust inn á facebook og eftir ýmsum leiðum. Þessi rannsókn verður nú auðleyst ef ég get brúkað samfélagið svona, til leiðbeiningar þegar mér sýnist.

Upp er annars runninn síðasti dagurinn í vinnunni. Ég hef grun um að við Palli Skúla séum ein á háskólasvæðinu í dag. Ég ætla að klára drögin að þessum kafla sem ég ætla að smíða í janúar, senda leiðbeinanda, og kalla það svo gott fyrir jól.

Ekki þarfyrir að jólin eru alveg komin heima hjá mér. Eftir að pakka inn nokkrum gjöfum og kaupa í matinn. Litlu ormarnir eru á leikskóla í dag en fá frí frá og með morgundeginum til 8. jan. Þá ætlum við loksins að lufsast aftur að austan.

En hlaupaveðrið hefur víst yfirgefið austfirðinga, svo ekki er víst að maður taki neina hringi á íþróttavellinum í þessu stoppi. Í staðinn ætla ég að vera ferlega dugleg og fara út á eftir, helst líka á morgun og alla jóladagana. Stefni á að missa svona 2 kíló um jólin. Ég er ekki klikkuð. Þetta er svolítið útpælt. Einu sinni fór ég nefnilega út að hlaupa fljótlega eftir morgunverð með amerískum pönnukökum, beikoni, sírópi og öllu tilheyrandi. Skemmst frá því að segja að ég hef sjaldan átt jafnlétt með að hlaupa 10 kílómetra. Gjörsamlega full af orku.
Svo planið er að vera dugleg að nota hitaeiningarnar um jólin.

Fyrir austan má síðan reikna með að það þurfi talsvert að leika við ormana úti í snjónum. Þau eru alla jafna mjög dugleg að leika sér úti, en þegar á Austurlandið kemur keyrir yfirleitt virkilega um þverbak. Þar eru hundar og kettir á hverju strái, ömmuróló, Steinaróló, leikskólaróló, já, og svo bara að þvælast út um allt að leita að fleiri hundum, köttum og rólóum.

Það er sem sagt ekki stefnt á nein sérstök rólegheit um jólin. Enda, nóg gert af því að sitja á rassinum á þessu ári.

Jæjah, best að kláretta!

21.12.09

Ef leikhúsnörrar vildu vera svo vænir að auka mér leti?

Ég fékk alveg hreint hroðalega góða hugmynd... að mér finnst, allavega.
Ég er að drafta kafla um orðræðugreiningu í rannsóknina mína sem ég ætla að ljúka við í janúar. Er búin að viða að mér efni úr nokkrum áttum, með nokkrum mis-mismunandi aðferðafræðum, aðallega til að greina einhverskonar valdboð eða valdastrúktúr í orðræðu.

Ofboðslega góða hugmyndin gengur útá að velja einn leiktextabút, einhvern vel samfélagsádeiluþjappaðan, eða ekki, íslenskan, frá allra síðustu leikárum, og brúka hann sem dæmi og beita þessum aðferðum á hann í gegnum allan kaflann.

Spurning dagsins er: Hvaða textabút, úr hvaða leikriti, ætti ég að nota?
Ég er búin að hugsa mig um í heilar 5 mínútur... og það er bara ekkert komið.

Einhverjar tillögur?

20.12.09

Að versla ekki við glæpamenn

Best að skrifa skýrslu um hvernig hefur gengið að versla ekki við neins konar glæpamenn fyrir jólin. Jólagjafir eru nánast allar komnar í hús og hjásneiðing hefur gengið vel.
Tveir pointerar: Á Suðurlandsbraut 8 er verslun sem heitir Extrakaup. Þetta er aðallega dót, en heilmargt af því mjög skemmtilegt og kostar lítið. Til dæmis ljómandi búð byrir jólasveina...
Svo er það jólabúð UNICEF á Laugavegi 42 uppá annarri hæð. Flottir hlutir og maður veit að ágóðann fær ekki einhver ríkur (eða hálfgjaldþrota glæpahundur) í vasann.

Jólamatarverslun verður síðan gerð í Krónunni og Nóatúni. Ekki að ég búist við að Kaupásmenn séu minni glæpamenn en Hagamenn, en einn er munurinn. Ég veit ekki hverjir þeir eru. Ég hef aldrei haft nokkurn einasta áhuga á því hvað Jóhannes í Bónus eða hans slekti gerir við sig, en einhvern veginn hefur öll þeirra tilvist troðið sér inn í vitneskjulíf sitt. Aðallega í formi þess sem þeir hafa veifað oflífinu og eyðslunni, í gegnum fjölmiðlana sína, framan í skítblankt smettið á mér í gegnum tíðina. Mér var svosem sama. Þangað til ég komst að því að þetta voru peningar minnar framtíðar, sem þeir voru að bruðla með.

Svo nú versla ég við Kaupás. Þangað til Högum hefur verið skipt upp í frumeindir sínar og eignarhaldi á ótrúlega marga. Þá verður Kaupás sveltur.
Verslanakeðjur eru handbendi Zatans.

18.12.09

Frasar hruns og kreppu

Guð blessi Ísland.

Þið eruð ekki þjóðin.

Einhliða Evra.

Maybe I should have.

Byltingin lifi

Vanhæf ríkisstjórn.

Og svo:

Er ekki sama hvaðan gott kemur?

Og örugglega margt fleira. Ætli einhversstaðar sé ekki orðræðunjörður að safna þessu?

Jólafrí frá „ástandinu.“

Helst ætla ég ekki að stökkva aftur upp á nef mér fyrir jól. Ekki svo að skilja að valdastéttin komist upp með neinn moðreyk... þetta reyndu þáverandi stjórnvöld líka að gera í fyrra. Keyra á allskonar vitleysu fyrir jól og vona að það gleymdist síðan yfir steikinni... En menn sneru bara fílefldir og hugdjarfir til baka og veltu ríkisstjórninni í janúar.

Nú er hins vegar í ljós að það er alls ekki nóg. Það þarf að velta stjórnkerfinu. Og líklega garga á þessa ríkisstjórn nonnstopp svo hún geri eitthvað í því að kasta af stjórnkerfinu og þjóðinni allri oki auðmanna. En ég hef trú á að þetta takist. Í janúar, með mallann fullan af hangikjeti og rakettureyk.

Ég er samt ekki komin í jólafrí í vinnunni. (Eða á maður að segja „vinnunni“?) Ætla að átlæna einn fínan kafla um nokkrar mismunandi aðferðir við orðræðugreiningu, í dag og eftir helgi. Það verður nú bara fínt.

Fór í gær og keypti næstum allar jólagjafir, nema í þá allra nánustu. Við hjónin ætlum að skreppa í smá ferð eftir. Unicef-búðina og svona. Klárum kannski bara dæmið. Hingað til hefur mér allavega tekist að sneiða alfarið hjá öllum mafíum. Jólamaturinn verður svo verslaður hjá Kaupásmafíunni, en ekki Baux, vegna þess að af tvennu illu fylgir nokkur alvara.

Frá og með deginum í dag eru Rannsóknarskip og Smábátur komnir í jólafrí. Þar sem þeir fá að sofa út fram að jólum fá þeir til tevatnsins alla seinniparta og verða settir í að klára allt sem ekki hefst um helgina.

Ég veit ekki hvort nokkuð verður nennt að baka. Með oggulítið eldhús sem ekki er hægt að loka, lítil börn sem ekki eru enn gjaldgeng í að hjálpa til, (en góð í að sulla og líkleg til að brenna sig) og aðeins 3 daga heima um jólin, (þar af jóladaginn alfarið í jólaboðum úti í bæ) virðist eitthvað svo lítill tilgangur með því. Ég kaupi kannski einhverjar kökulufsur og skammast mín ekki baun. Ef ég baka eitthvað verður það líklegast einhver tilraunamennska úr Silfurskeiðinni.

Mig langar miklu meira að þrífa bara og skreyta á morgun (og kannski eitthvað hinn) og vera svo bara í einhverju tjilli fram að jólum. Kannski verði meira að segja eitthvað úr því að mæta í Friðargöngu á Þollák. Sem ég hef ætlað að gera síðan ég flutti í bæinn, en aldrei komið í verk.

Kannski verður þetta þessi rólegi og skemmtilegi jólaundirbúningur sem maður sér alltaf í jólaauglýsingunum en aldrei heima hjá sér?

Lítið stressað hjá okkur, held ég bara.

17.12.09

Andskotinn!

Djöfull er leiðinlegt að verða svona fúll rétt fyrir jól.

En Bjólfur T. Hor er á leiðinni á fullu inn í atvinnulífið á Reykjanesi. Og iðnaðarráðherra veitir honum ívilnanir og undanþágur. Og aðstoðarmanni forsætisráðherra er sama hvaðan "gott" kemur. (Gott verandi peningar, off course.)

Ef gaurinn sem stal evrunum af hinum gaurnum í fyrradag myndi nota þær til að kaupa húsið af þeim sem stolið var frá... væri það gott? Er alveg eðlilegt og sjálfsagt að Bjögginn komm bara með peningana sem hann stal frá hérlendum sem erlendum (og við erum að skuldsetja okkur til helvítis til að borga) og fái að fjárfesta með þeim í vitrænum framkvæmdum hér á landi sem gætu meiraðsegja skilað hagnaði, og fitni svo eins og púkinn á fjósbitanum á öllu saman? Og fá dæmið þar að auki á brunaútsölu?

Árum saman fengu þessir menn lán á lán ofan, ívilnanir og undanþágur hvar sem þeir komu, út á fésin á sér. Almenningur naut þess ekki að geta fengið nokkurra milljarða lán til að kaupa banka, síðan fullt í viðbót og láta síðan ríki og þjóð borga.

Og nú er komið að skuldadögum, eða ætti að vera það, og þá fá menn að koma með þýfið og kaupa atvinnulífið! Er ekki kominn tími til að "mismuna" gegn, þó ekki væri nema, lykilmönnum í þjóðargjaldþrotinu?

Mig langar að gubba og grenja, ekki búa hérna lengur og fer beinustu leið niður á Austurvöll eftir áramót og kveiki í helvítis jólatrénu.

Hefur eitthvað breyst á spillta Íslandi? Mér líður allavega bara nákvæmlega eins og á sama tíma í fyrra.

16.12.09

Aumur blaðamaður... en hver skeit?

Bjarni Ben fer ekki vel út úr orðræðugreininguni í dag.

Einu sinni sagði einn sjálfstæðismaður sem ég þekki við annan, sem ég þekki líka: Þegar þú ert búinn að skíta á þig verðurðu að hafa vit á að láta eins og lyktin sé af einhverjum öðrum.

Bjarni er greinilega að reyna að tileinka sér þetta, í þessu viðtali.
Hvernig honum gengur fer síðan alveg eftir því hvern maður talar við...

Af gríðarmikilli akademískri leti í kjölfar stórsigurs

Kem mér hreint ekki að verki. Er búin að fá mér kaffi, lesa allt sem stendur á internetinu. Nenni samt hreint ekki að halda áfram með annars stórspennandi bók Normans FairClough um pólitíska orðræðugreiningu. (Sem er samt ekkert eins leiðinleg og hún hljómar.)

Sennilega eitthvað með það að gera að ég er búin með öll verkefni sem er "formlega" búið að segja mér að gera á þessari önn og ég er að fara að hitta leiðbeinendurna mína seinna í dag og veit ekkert hvað þeir ætla að segja.

Svo er ég bara montin. Fékk mína fyrstu einkunn í doktorsnámi. Hún var 9,5. Ég sit og horfi dáleidd á tölfræðiútreikningana úr doktorsnáminu mínu. En þar stendur: Meðaleinkunn: 9,5. Ég ætla að horfa reglulega vel á hana áður en næsta einkunn kemur og eyðileggur þetta. En þessi einkunn var nú í Brechti. Sem ég hef nú eiginlega enga afsökun í heiminum fyrir að fá lægra í.

Ég er enn ekki farin að undirbúa jólin. Eiginlega neitt. Gleymdi að kveikja þremur kertum á, á sunnudaginn. Er reyndar að fara í jólakaffi á leikskólanum hans Hraðbáts á eftir. En jólagjafir, jólatiltektir, jólabakstur... ekki einu sinni farið að pæla íessu. Kæruleysi? Líklegast.

Vonandi jólnar yfir mannskapnum um helgina. Svo verða tveir virkir dagar þar sem allir verða í jólafríi nema litlu ormarnir. (Og hugsanlega ég. Eftir því hvað menn segja á eftir.) Þá kemst vonandi eitthvað í verk.

Geeeeisp! Það endar með því að ég fer bara út að hlaupa í myrkrinu.

15.12.09

Sjallar! Vakna!

Í pólitík er ég einhversstaðar talsvert vinstra megin við VG. En ég hef áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum. Undanfarna daga hef ég verið að lesa, hér og hvar (man ekki einusinni hvar) að stefnubreyting hafi orðið hjá sjöllum á landsfundinum síðasta, þegar skýrslu svokallaðs endurreisnarhóps hafi verið kastað fyrir róða og ákveðið að halda bara áfram, einhvernveginn. Bísness es júsjúal.

Það getur vel verið að þessi skýrsla hafi verið "vond" og illa unnin, eins og einhverjir segja en að stilla upp (meintum) stórfyrtækjabröskum og kúlulánafólki í fremstu víglínu getur bara ekki talist sérlega klókt, á þessum síðustu og verstu tímum.

Ég sé algjörum ofsjónum þessa dagana yfir stóru verslanakeðjunum og risafyrirtækjunum sem eru meira og minna í eigu þeirra sem settu þjóðina á hausinn með braski. Þeir virðast eiga allt, í gegnum endalausa vafninga og eignarhalds- eignarhalds... eitthvað. Og þeir eiga greinilega bara að fá að halda áfram að braska. Eins og vindurinn. Og fá fyrirgreiðslu frá ríkinu til að taka þátt í að stofna fleiri fyrirtækja, sbr. Bjólfurinn sem ber beina eða óbeina ábyrgð á þriðjungi allra skulda ríkisins í dag.

Ég man þegar Sjálfstæðismenn voru málsvarar smáfyrirtækja. "Lítilla" kaupmanna og útgerðarfyrirtækja sem reyndu að standa í samkeppni við stóru vondu Samvinnuhreyfinguna og útgerðarrisana. Þá sá maður fyrir sér feita og gráðuga svíðinga sem voru að reyna að fara illa með sjómenn og bændur. Núna er allt annað í gangi. Íhaldið (orð sem maður heyrir of sjaldan) gæti auðveldlega tekið sér stöðu sem vinur litla viðskiptamannsins og gegnt lykilhlutverki í því að leiðrétta samkeppnisumhverfi í íslenskum viðskiptum. Nokkuð sem liggur í eðli flokksins, grundvallarstefnu og sögu.

En það gerir hann aldrei með góðærisplebbana fremsta í flokki.

Er ekki nóg að ríkið sé að hlaða undir gosana þó sjallar geri það ekki líka? Skýtur ekki nokkuð skökku við að djöflast á Samfylkingu fyrir (meinta) hliðhylli Baugs og vera síðan með hinn tvíburaturninn undir verndarvængnum? Eru stjórnmál Íslands kannski líka komin í einkaeign Baugs og Bjólfanna og koma okkur skrílnum þess vegna ekki við?

Þetta síðastnefnda óttast ég að sé rétt, í hugum stjórnvalda og hinnar fámennu valdastéttar á Íslandi. Þess vegna spái ég róttækri, og líklega blóðugri, byltingu ekki síðar en á vordögum.

14.12.09

Jóla Jólajóla

Liðin er fyrirjólunarhelgin ógurlega. Farið var í sumarbústað Ingömmu og Ólafa og laufabrauð steikt á mettíma. Allir krakkar fengu að fara í pottinn með ömmum, öfum og pöbbum og skemmt sér var í hvívetna. Étin hrefna og svona. Svo var drullumallað rækilega úti í stórum polli áður en heim var haldið.

Á öðrum vígstöðvum var síðan Jólahrun Hugleiks frumsýnt í Hugleikhúsinu að Eyjarslóð. Ég held það sé alveg óhætt að mæla meððí. Heilmikið sungið, dáldið leikið og fíflast.
Síðasti sjens í kvöld klukkan 20.

Þegar öllu þessu er lokið fer nú að verða kominn tími til að undirbúa sjálf jólin. Á heimilinu hefur ekki verið bökuð svo mikið sem ein kaka. Keypt í mesta lagi ein og ein „random“ jólagjöf, húsið væri enn í rúst ef heimilisgesturinn Bára hefði ekki tekið geðveikt vel til á meðan við vorum í bústað (og svo fór hún bara austur án þess að við næðum að þakka henni fyrir eða neitt. Hún verður að fá eitthvað voða fallegt í þrítuxafmælisgjöf á milli jóla og nýjárs.)
Og allt eftir þessu.
Líklega þarf eitthvað að taka á honum stóra sínum í jólaundirbúningsmálum heima fyrir á kvöldin í vikunni.

Annars er syndróm sprunginnar blöðru eitthvað að gera vart við sig. En það gengur víst ekki. Ég ætla að gera eitt rannsóknarverkefni í vikunni. Um orðræðugreiningu. Held ég.
Já, og svo er hlaupaveður sem ég ætla að nota rækilega, þennan klukkutíma sem nokkurn veginn dagbjart verður um hádegisbilið.

10.12.09

Byltingin lifi!

Ómar Ragnarsson og Teitur Atlason spara mér ómakið að fjalla um helv... vinstri/hægri/snú kjaftæðið sem er vaðandi um allt í umræðunni þessa dagana.

Það er fáránlegt að hrunsvöldum sé í alvörunni að takast að fá ótrúlega marga almenna borgara til að vera (eða ætla öðrum að vera) ýmist með Sjálfstæðismönnum eða Útrásarvíkingum „í liði“.

Langflestir Íslendingar eru heiðarlegt fólk sem vill sjá hér annað og betra þjóðfélag á alla lund. Langflestir eru vaknaðir af dvalanum og eru að mynda sér sínar skoðanir á því ástandi sem „góðærið“ gat af sér. Þar að auki eru ýmis stórmál sem margir eru að endurmeta afstöðu sína til þessa dagana, til dæmis, náttúruvernd, stóriðja, Evrópusambandið, NATÓ, Obama, skattamál, velferðarmál, og svo mætti lengi telja, (ég ætla ekki einu sinni að nefna fokkíng Ísbjörgu) sem ganga svo þvert á allar flokkslínur að ekki er samstaða innan flokka um þær, og getur ekki verið.

Sem gerir nákvæmlega það að verkum að það þarf að gera fleiri byltingar.

Það er búið að gefa fjórflokknum allan séns í heimi. Hann virkar ekki. Hægri/vinstri á ekki lengur við nema í örfáum og smáum málaflokkum. Allir vilja redda þessu. Nema þeir sem enn sitja við kjötkatlana eins og ekkert hafi í skorist og hamast nú við að skipa lýðnum í fylkingar á móti sjálfum sér.

En í nýjum mótmælum á Austurvelli sé ég upphafið af nýrri byltingu. Þar hefur mönnum tekist, rétt eins og fyrir ári, að draga saman nokkur grundvallaratriði sem við erum flest sammála um. Hinn raunverulegi klofningur er á milli hrunsvalda og þjóðar og stjórnvöld virðast bæði máttvana og rígbundin á klafa úrelts skipulags sem heldur glæpalýðnum allsstaðar undir pilsföldunum.

Mér finnst alveg ljóst að við þurfum að halda áfram að berja á nýju ári. Kveikja í jólatrénu og allt það. Vill til að við sömdum ansi gott lag í fyrra og ætti ekki að verða skotaskuld úr að semja annað og róttækara.

Byltingin lifi!

Rörasaga

Af því að ég veit að einhverjar ömmur og frænkur bíða í ofvæni eftir fréttum að eyrnaheilsu yngsta fjölskyldumeðlimsins verða hér afrek morgunsins færð í annála, nokkuð nákvæmlega.

Friðrik hinn ungi vaknaði árla morguns en varð harla foj yfir að fá ekkert að drekka. Sama hvað hann heimtaði og grenjaði þá varð hann að vera fastandi þar til búið yrði að pípuleggja fyrir hlustir honum. Þetta þótti honum hið versta mál, en hefur honum þótt um ansi margt nú um nokkuð langa hríð.

Rétt fyrir níu mætti ég með hann, enn nokkuð grjótfúlan, upp í Handlækningastöð í Glæsibæ. Þar batnaði skapið nú nokkuð, ekki síst fyrir tilstuðlan Bubba Byggis dótsins á biðstofunni. En Adam var ekki lengi í Paradís og mótmælti harðlega þegar hann var dreginn inn á einhverja viðgerðarstofu. Sem betur fór var svæfingaferli bara sett í gang hið snarasta og drengur meðvitundarlaus.

Ég fór fram á biðstofu og þetta var búið innan 5 mínútna. (Ég hélt hálfpartinn að það hefði verið hætt við.) En drengurinn var kominn með rör í eyrun og búinn að losna við heilan lítra af slími sem læknirinn fann þar innanhúss. Hann spurði hvort drengurinn hefði ekki verið búinn að vera illa pirraður. Sem hann er búinn að vera. Kannski ekki endilega miðað við önnur börn, en miðað við eigið skapferli sem hann hefur beina leið frá föður sínum. Læknirinn sagði að hann ætti að heyra betur, sofa betur og verða almenn glaðari eftir að hafa losnað við allt þetta úr hausnum.

Læknirinn var farinn þegar sjúklingurinn vaknaði. Þá birtist einhver öskrandi umskiptingur sem hafði allt á hornum sér þangað til við vorum komin niður í bakarí og hann fékk kókómjólk. Það var þó strax greinilegt (þegar hann var þagnaður) að honum þóttu öll hljóð merkileg. Ég tók líka eftir því þegar ég var að tala við hann á leiðinni heim hvað ég var búin að venja mig á að tala hátt þegar ég talaði við hann.

Þegar heim kom hélt ég áfram að gefa honum allar mjólkurvörur sem hann gat í sig troðið, í gleði minni, þrátt fyrir magapínur undanfarinna daga. Hreinsaði svo samviskuna með LGG. Líklega verður karma mínu þó refsað með kúkasprengju seinna í dag. Drengur er farinn að brosa út að eyrum, eins og maður hefur ekki séð vikum saman og dundar sér syngjandi. Hann virðis þegar vera farinn að verða sjálfum sér líkur.

Í framhaldinu má hann fara í leikskólann á morgun og þarf að fá smyrsl í eyrun 2svar - 3svar á dag fram á sunnudag. Þá eiga eyrnabólgur framtíðar ekki að valda öllum þessum ósköpum og magaheilsunni vonandi bjargað frá fleiri pensillínkúrum. Sem er eins gott. Ég vigtaði manninn í morgun og hann er orðinn 10 kíló. Var 12 í haust. Hann er sem sagt búinn að léttast um einhver 15% af líkamsþyngd sinni og er kominn niður í þyngdina sem hann var í þegar hann var um 8 mánaða gamall. Enda er hann kominn með mjög vannæringarlegt yfirbragð og verður settur á Herbalife nú þegar og mataður á mæjónesi og rjóma til skiptis öll jólin.

8.12.09

Jóladagskrá Hugleiksins

Þá er líklegast rétt að byrja að plögga.

Á sunnudax og mánudaxkvöldið verður jóladaxkrá Hugleixins, sem þetta árið heitir Jólahrun, haldin hátíðleg á í Hugleikhúsinu að Eyjarslóð 9. Þar verður m.a. á boðstólnum nýtt verk eftir sjálfa mig í leikstjórn höfundar. Og flutningi Jóns Gunnars og Lubba Klettaskálds.

Eins og ég hafi ekki þá þegar reist mér hurðarása um axlir taugaveiklunar og stressss er ég líka eiginlega hálfpartinn búin að segjast ætla að syngja.

Einnig verður á dagskrá verk eftir Rannsóknarskipið í leikstjórn Harðar S.Dan.

Svo við stelum þarna alveg heilmikið af senum. Og þetta verður sjálfsagt bara gaman. Og örugglega alveg þess virði að mæta, ef menn nenni.

Persónulega stressar þetta dæmi mig talsvert meira en allt akademískt álag þessa dagana.

Af hverju gerir maður þetta alltaf?

Listi yfir allt gott á Íslandi í dag

1. Eva Joly
2. Færri auglýsingar.
3. „Markaðurinn“ er ekki lengur að troða sér allsstaðar inn í fréttir og allskonar og drepa mann úr leiðindum.
4. Það er aftur hægt að fremja listir og menningu án þess að vera sponseraður af stórfyrirtæki.
5. Kreppujól eru fallegri, betri, yndislegri og hlýrri að innan heldur en góðærisjól.
6. Það er ekki lengur plebbalegt að vera á kvínandi kúpunni. Það er kúl.
7. Kreppuhlátur er innilegri og fallegri (þó hann sé örlítið örvæntingarblandinn) heldur en græðgis- og greddulegi góðærishláturinn.
8. Fólk er duglegra að gefa í hjálparstarf þó það eigi enga peninga.
9. Sérstaki saksóknarinn sem ætlar að setja alla vondu ríkukallana í fangelsi.
10. Á næsta ári er séns að við þurfum aldrei aftur að heyra orðið „Icesave.“

Eftir góða ábendingu bara verð ég að benda á eitt enn.

11. Ísland er nú McDonalds-frítt land! Húrrah!

Og þetta er bara rétt að byrja!
Við verðum öll miklu fátækari á næsta ári! Líklega borgaralega óhlýðnari og kveikjum í bönkum og stórfyrirtækjum ef ríkið verður ekki nógu snöggt í snúningum við að hirða það af gjaldþrota ríkuköllum!
Jeij!

Heilsufréttir

Í dag er Smábátur heima með gubbuna sem Hraðbáturinn var með um helgina. Þá eru allir búnir að fá hana nema Freigátan. Ég byggist alveg eins við símtali frá leikskólanum hennar ef ég hefði ekki gleymt símanum heima.

Freigátan var annars fyndin í morgun. Í jóladagatalinu hennar var mynd af engli.
Ég: Hvað er nú þetta?
Hún: Kona.
Ég: En... hún er með vængi. Hvað er hún þá?
Hún: Álfur.
Ég: Er hún ekki engill?
Hún: Mamma. Englar eru ekki til. !!!

Habblaha. Eru álfar kannski menn? Ja, þeir eru allavega til, skv. trúarbragðakerfi dóttur minnar. Ekki englar.

Hraðbátur er í leikskólanum, en hann fékk þann úrskurð hjá eyrnalækninum í gær að það væri vökvi í eyrunum hans og hann fær rör í þau á fimmtudaginn. Ef hann verður ekki kominn með eyrnabólgu áður. Eða hlaupabóli. Ef ég væri með símann byggist ég líka fastlega við símtali úr leikskólanum hans.

En ég er ekki með símann. Og er meiraðsegja að fara í PRÓF á eftir. Frekar gaman að lenda í því á síðustu og verstu tímum, en til vill að einn kennarinn minn er óttalegur sérvitringur og vill endilega láta menn taka próf alveg á MA og doktors og hverjusemer. Hann lét mig líka taka próf fyrir u.þ.b. ári síðan. Ég var skeptísk. Þangað til ég fékk 9. Svo nú er ég bara syngjandi kát, ætla að læra voða vel um hann Brecht og massetta!

4.12.09

Kreppujóló snilld

Jólasveinarnir 13
1.
Glitnisgaur kom fyrstur,
gráðugur í öll bréf.
Hann laumaðist í vasana
og lék með fólksins fé.

Hann vildi sjúga þjóðina,
þá varð henni ekki um sel,
því greyið var sko afæta,
það gekk nú ekki vel.

2.
Björgúlfsaur var annar,
með gráa hausinn sinn.
Hann skreið úr skipi hafsins
og skaust í bankann inn.

Hann faldi sig í Rússlandi
og froðunni stal,
meðan bjórmeistarinn átti
við Yeltsín gamla tal.

3.
Bjármann hét sá þriðji,
böðullinn sá.
Hann krækti sér í milljarða
þegar kostur var á.

Hann hljóp með þá til Noregs
en hirti ekki um sjóðina,
sem féllu hver af öðrum
við sjáum núna slóðina.

4.
Sá fjórði, Bændasleikir,
var fjarskalega sljór.
Og ósköp varð hann leiður,
þegar bankadruslan fór.

Þá þaut hann eins og Welding
og þotuna greip,
og flaug með henni í London
því krónan var svo sleip.

5.
Sá fimmti Smárasnefill,
var skrítið fjármagnsstrá.
Þegar hinir fengu í nefið
hann barði dyrnar á.

Þeir ruku'upp, til að gá að
hvort gestur væri á ferð.
Þá flýtti' ann sér að pokanum
og fékk sér góðan verð.

6.
Sá sjötti Sigjónárna,
var alveg dæmalaus.-
Hann framundan rústunum
rak sinn ljóta haus.

Þegar fólkið vildi skýringar
á auralausum reikningum,
hann slunginn var að afsaka
og skyldi ei neitt í hlutunum.

7.
Sjöundi var Heiðarmár,
sá var sjaldan sýndur,
ef fólkið vildi tal af 'onum
hann var alltaf týndur.

Hann var ekki sérlega
hnugginn yfir því,
þó þjóðarskútan maraði
þá hálfu kafi í.

8.
Baugabur, sá áttundi,
var skelfilega þver.
Hann hluta keypt'af bönkunum
með hluta úr sjálfum sér.

Svo lánaði hann sér milljarða
og yfir öðrum gein,
uns hann stóð á blístri
og stundi og hrein.

9.
Níundi var Nógafaur,
næmur á fé og snar.
Hann hentist út um heim inn
og hluti keypti þar.

Á enskum bita sat hann
í símaleik
og át þar hluti drjúga,
enga Breta sveik.

10.
Tíundi var Skallakjaftur,
tungulipur mann,
sem hamaðist á landslýð
og æsti upp hann.

Ef vammlegt var hvergi
né ósiðlegt að sjá,
hann oftast nær seinna
í það reyndi að ná.

11.
Ellefti var Stjórnaskelfir
aldrei fékk sá kvef,
og hafði þó svo hláleg
og heljarstór eyru og nef.

Ef fnyk af féhyggju
ekki hann fann,
þá léttur, eins og reykur,
lyktina upp spann.

12.
Sólráður, sá tólfti,
kunni að spinna vef.-
Hann þingmannasveitina
sveigði í kosningaþref.

Hann krækti sér í fylgi,
þegar kostur var á.
En stundum reyndist enginn
akkurinn hans þá.

13.
Þrettándi var Kreppugeir,
þá var komið kvöld,
alltaf kom hann síðastur
á bankahrunsöld.

Hann blekkti litlu börnin sín,
sem mótmæltu prúð og fín,
og trítluðu um bæinn
með spónaspjöldin sín.

(Höfundur óþekktur
)

3.12.09

Jah...

Hvað skal segja? Ekki nenni ég í Æseif. Eru menn ekki alltaf í ruglinu á þessu Alþingi hvortsemer?

Ég hangi yfir verkefnum og ritgerðum þessa dagana. Einu ætla ég að skila á morgun, öðru á mánudaginn, próf á þriðjudaginn og svo ætla ég að skila síðustu ritgerðinni á föstudaginn eftir viku. Svo er ég að hugsa um að skrifa eina ritgerð enn fyrir jól, um orðræðugreiningu, bara svona uppá fönnið.

Peningarnir mínir eru enn í gíslingu. En ég má ekki vera að því að standa í að frelsa þá strax. En umsóknin mín um að komast í viðskipti við sætan sparisjóð fyrir norðan er farin í póst. Svo hugsa ég mér gott til glóðarinnar í framtíðinni að þurfa í Svarfaðardal eða Hrísey einu sinni á ári til að athuga hvort bankinn minn er á sínum stað.

Hraðbáturinn fór í leikskólann í dag, en svo sóttum við hann reyndar snemma. Hann fékk einhvern smá hita og lumbru seinnipartinn. Um kvöldmatarleytið var hann síðan bara alveg í bananastuði svo líklega verður önnur tilraun gerð á morgun. Annars er Ingamma Smábátsins á bakvakt.

Já, svo er ég að (fara að) leikstýra einu örstuttu sem á að verða á Jólavöku Hugleiks sem á að haldast á Eyjarslóðinni... einhverntíma. Ég veit ekki hvað þetta er með desember. Hann rennur alltaf einhvern veginn allur alltaf saman. Ég braut annars blað í sögunni í dag og fjárfesti í fyrstu jólagjöfinni.

Og nú er ég algjörlega að eyða dýrmætum tíma í vitleysu. Krakkar sofandi, Smábátur í útláni, Rannsóknarskip úti í bæ að spila póker... auðvitað ætti maður að vera að gera eitthvað af alveg ferlegu viti.

Einntveirog...!

1.12.09

1. des.

Fyrir ári síðan var líka skítakuldi.

Við Hraðbátur létum okkur samt hafa það að mæta uppá Arnarhól á þjóðfund. Þar stóð ég lengi dags með barnungann í vagninum og tárin í augunum af hamingju yfir að heyra menn tala svo heitt hjartanlega af öðrum hvötum en eiginhagsmunapoti og græðgi. Þetta var mikil breyting frá þjóðfélagi síðustu ára.

Í dag hefur einn banki verið endureinkavinavæddur. Sami banki vill ekki láta mig hafa milljónina sem ég á hjá honum og þarf að nota hluta af og hef engan áhuga á að geyma restina hjá hulduher útrásarvíkinga með "kröfur" og Tortólapeninga. Ég er semsagt aftur alveg að fara að grenja í dag. Fyrst stjórnvöld geta þvegið hendur sínar af þessum banka vil ég geta gert það líka.

Alþingi er í gíslingu auðvaldspúka og fávita.

Einu sinni var Ísland fullvalda. Nú eru Íslendingar landlaus þjóð.

Amma mín á nú samt afmæli. Og Mæja.
Til hamingju.

Arion heldur sparifé mínu í gíslingu!

Jæja. Nú fer ég alveg að hringja í Davíð.

Ég er búin að standa í "ferli" að skipta um viðskiptabanka. Og eitt grunaði mig að yrði vesen. Ég á nefnilega rúma milljón inni á verðtryggðum reikningi í "Arion" (þetta nafn bara verður að vera innan gæsalappa) og hann er bundinn til 2012. Þegar ég stofnaði hann grunaði mig hins vegar ekkert um að þessi banki hefði hugsað sér að halda uppi glæpastarfsemi Haga um ókomna tíð og einkavæðast á þann dæmalausa hátt til huldufólks eins og nú er orðið. Svo lengi sem ég verð í einhverjum viðskiptum við þennan banka verð ég með æluna í hálsinum.

Sem betur fer er umsókn mín um viðskipti hjá Sparisjóði Svarfdæla langt komin. Það er bara eitt vandamál. Bankinn vill ekki láta mig fá peningana mína. Útibússtjóri þarf að samþykkja að maður eyðileggi eða taki út af bundnum reikningi. Þetta hef ég þó fengið að gera fram og til baka á mínum reikningum í þessum banka sem öðrum alla ævi, hef enda algjörlega flekklausa viðskiptasögu og þetta ekki verið fjárhæðir sem ættu að setja bankann á hausinn.

En í morgun hringi ég, og fæ svar eftir nokkra stund, þvert nei.

Stuttu síðar sé ég fréttir af nýju eignarhaldi bankans.

Ég sé rautt og er of frávita af brjáli til að átta mig almennilega á því hvað ég á að gera næst. Faðir vor ætlar að ræða eitthvað við sinn mann innan útibúsins og nýi viðskiptabankinn minn er tilbúinn til að reyna eitthvað að koma að málinu, gangi það ekki.

Ég vona að gert verði áhlaup á bankann og hann fari á hausinn fyrir hádegi á morgun. Ég vil frekar hafa peningana mína glataða að eilífu heldur en "óhulta" í láni hjá Jóni Ásgeiri eða öðru útrásarpakki.

Ég held ég fari bara í gönguferð og síðan jóga til að forða mér frá alvarlegu geðrofi af brjáli.

30.11.09

Bankaskipti og langþráður svefn

Hið ótrúlega er að gerast. Hraðbátur, sem ekki hefur sofið nema svona hálftíma í senn í viku eða meira, svaf 4 tíma í dag. Var þó greinilega illa sofinn eftir og sofnaði við fyrsta svæf og hefur sofið eins og steinn í allt kvöld. Ég veit bara hreinlega ekki hvað ég á að gera við hendurnar á mér þegar ég þarf ekki að halda á honum og er því búin að eyða kvöldinu étandi. Ekki gott. En ofursterku sýklalyfin eru greinilega að virka á drenginn og ég trúi því varla að ég sé að fara að sofa kannski bara nánast sleitulaust í alla nótt.

Svo er ég að fylla út umsókn um allskonar þjónustu hjá nýja bankanum mínum, Sparisjóði Svarfdæla. Útibú á Dalvík og í Hrísey. Engar horfur á útrás. Alveg örugglega engar afskriftir til glæpamanna. Ég mun sofa enn betur þegar bankaviðskipti mín eru komin á betri stað. Ég ætla alltaf að klappa bankanum mínum þegar ég kem til Dalvíkur. Sem hefur átt til að vera svona einu sinni á ári. Kannski maður geri sér ferð til Hríseyjar.

Og, svo maður minnist nú á það, hvaða leynisamningur sem vér sauðsvartur má ekki vita um er á bak við Icesave-samkomulagið? Og það skuggalegasta af öllu, af hverju kjaftar stjórnarandstaðan ekki frá því? Og ef þetta eru upplýsingar sem koma hrunamönnum illa, af hverju kjaftar Steingrímur ekki frá því? Og ég meika ekki öll þessi leyndó elítunnar.

Sennilega endar með því að við verðum að gera almennilega byltingu og höggva hausana af þessum sækópötum öllumsaman.

29.11.09

Svefnlaus

Það er afar spennandi að eiga börn. Til dæmis getur maður stundum þurft að prófa alveg til þrautar hvað maður kemst af með lítinn/engan svefn lengi, án þess að verða afar geðveikur. Ég er einmitt stödd í slíkri tilraun. Er alltaf að vona að henni fari að ljúka en það er hreinlega ekkert útlit fyrir það. Hreint ekki neitt. Eiginlega þvert á móti.

Hraðbátur er búinn að vera með nokkrar veikir í röð. Núna alveg síðustu nætur hefur hann eiginlega ekki sofið neitt. Hann er eitthvað svo stíflaður og uppfokkaður í öllum öndunarfærum að um leið og hann sofnar hættir hann að geta andað. En stundum er hann samt ágætur þegar hann er vakandi. Svo áðan fann ég að eitlarnir í hálsinum hans eru alveg stokkbólgnir. Og ég las mér til um einkirningssótt. Og komst að því að hún myndi útskýra þetta alltsaman. Og tekur 2 - 4 vikur.
Sijitt-fokk-dem-bitsj-hell.

Við hliðina á þessu er hlaupabólan sem Freigátan er með bara pínöts. Hún átti reyndar svefnlausa nótt síðustu nótt og fékk að fara í bað með hafragrjónum í um miðnættið. Það þótti henni svo mikið sport að hún hefur reynt að feika kláða annað slagið í dag til að fá að fara í svoleiðis aftur.

Svo á ég víst að þykjast vera einstaklingur á daginn í næstu viku og skrifa einhver verkefni og ritgerðir og svona. Ekki einu sinni fyndið hvað ég sé það ekki gerast.

---

Öppdeit:
Morguninn eftir fór ég með Hraðbátinn til barnalæknis og hann úrskurðaður með enga einkirningssótt heldur bara brjálaða sýkingu í eyrum (ennþá) sem hefur dreift sér í alla kirtla og eitla. Hann fékk uberpensillín og getur vonandi bráðum farið að anda léttar og sofa á nóttunni. Móðir hans verður mun skemmtilegri í samskiptum þareftir.

25.11.09

Er maður maður?

Inn á milli þess að standa í bankaskiptum og brjálast yfir dómgreindarskorti stjórnenda bankans hvers nafn ég kann ekki að nefna er ég alveg með hausinn á kafi í Brecht. Er að lesa Mann ist Mann. Myndi á íslensku útleggjast eitthvað svona... Maður í manns stað, kannski. Fantaspennandi stöff og skrifboðið mitt vaðandi í tengdu fræðiefni. Líklega gengi mér þó betur að einbeita mér ef ormarnir mínir væru ekki báðir lasnir og hefðu haldið okkur vakandi með ýmis konar tónleikum í dag. Litlu greyin. Freigátan er með kvef og hita en Hraðbátur er með sitt lítið af hverju, eyrnabólgu, hósta, einhverja magapínu... bara svona óskilgreindan kokkteil.

Við Rannsóknarskip skiptumst á að leggja okkur aðeins í morgun, svo fékk ég að fara í vinnuna og þarf að vinna af mér daginn og fyrramálið, þá ætla ég að vera heima. Þarf nú sennilega að skila einhverju dóti seinna en ég ætlaði. En það er bara allt í lagi. Að hanga heima og knúsast gengur fyrir þegar svona stendur á og er þar að auki miklu skemmtilegra. ;)

Annars eru þetta örugglega bara fráhvörf. Amman fór í gær eftir þriggja daga stopp. Ég fer alveg að leggja drög að því að safna fyrir ömmuhúsi, sem er við hliðina á mömmuhúsi, til að geta alið manninn og börnin í almennilegri nánd við hana. Þetta er svo ljómandi þægilegt.

Svo var Complete Vocal námskeiði Hugleiksins fram haldið í gærkveldi. Þar misþyrmdi ég Ó, helga nótt samviskusamlega svo undirtók í olíutönkunum. (Og þá er ég ekki með neina uppgerðarhógværð. Ég get alveg sungið það fallega. En ég var að prófa svolítið annað. Ákveðið tækniatriði, þrælerfitt, en hreint ekki fallegt á þessu stigi málsins. Arfaskemmtilegt.) Á morgun er svo gítartími, þar er spilaður Blackbird, afturábak og áfram, og helst langar mig að læra að syngja það með, en það er fjandanum erfiðara og ekki má maður nú vera að því að æfa sig neitt geðbilað mikið.

Talandi um æfingar, ég fékk flugu í höfuðið. Ætla að setja upp einn örstuttan þátt fyrir jóladagskrá Hugleiks sem verður um miðjan mánuðinn. Er búin að finna mér leikara og veit hvernig þetta á að vera... þá er bara að finna tíma til að klára að skrifa textann.

Og talandi um tíma, þetta gengur víst ekki... enda var þetta bara svona upphitun til að koma mér í skrifgang fyrir hinar hundfræðilegu pælingar sem ég ætla nú að setja á blað um Benjamin og Brecht.

23.11.09

Tortryggni

Jóhannes Jónsson stendur fyrir kauptilboði til Arion í Haga. (Ath. ekki Jón Ásgeir.)
Útlenskir auðmenn ku standa með honum að þessu. (Ath. við vitum ekki hvar þeir fá peningana. Í lánabók gamla Kaupþings, hinni háleynilegu, kom í ljós að "útlenskir auðmenn" höfðu undantekningalítið fengið peningana sem þeir voru að leggja í bankann, að láni úr bankanum.)
Engar afskriftir verða. (Ath., við vitum ekki hvernig tilboðið hljóðar. Er hægt að orða afskriftir einhvern veginn öðruvísi?)

Mér finnst líklegt að verið sé að slá ryki í augu mín og almennings og gera ráð fyrir að við finnum mun á kúk og skít.

Ég vil vita í hverju þetta tilboð felst. Nákvæmlega. Og hvað átt er við með öllum orðunum.
Ef maður hefur eitthvað lært af undanförnum árum í þjóðfélagi með þessum glæpónum er það að það er ekki hægt að vera of tortrygginn.

Annars vildi ég óska að Jóhanna og Steingrímur tækju nú af mér ómakið. Sérstaklega þar sem nýi peningaþvottabankinn er búinn að senda þeim fingurinn með því að hóta brottrekstri hverjum þeim sem notfærir sér ákveðin úrræði ríkisstjórnarinnar.
Fer ekki að koma tími á að skipta um toppa þarna?

Annars fer ég að taka mér Davíð Oddsson til fyrirmyndar, marsera í bankaskrípið (ja, eða netbankann) og færa viðskipti mín.

ANDSKOTINN!

Já, nú duga engin útlensk og slyttisleg blótsyrði lengur.

Mikið djöfull er viðbjóðslega blóðugt að horfa uppá niðurskurð hjá ríkinu, skattahækkanir og hvaðha, á meðan nokkrir útrásarfávitar fá að leika lausum hala í bönkum í ríkiseigu, afskrifa milljarðaskuldir hjá fávitum sem hafa sýnt af sér þá snilli eina í viðskiptalífinu að geta sett hvað sem er á hausinn.

Ég hef ekki skipulagt neinar mótmælaaðgerðir. Ég sniðgeng Hagabúðirnar alveg gjörsamlega ómeðvitað. Hreinlega meika ekki að versla í þeim, hvað sem það kostar að fara annað. Best líður mér í Pétursbúð, þessa dagana.

En enn eru viðskipti mín hjá hinum nýnefnda peningaþvottabanka. Ég hef ekki skipulagt aðgerðir. En einhvern næstu daga kem ég til með að yfiirgefa hann, í nokkru fússi og með þjósti. Mér er alveg sama þó Jón Ásgeir hafi riggað upp einhverjum útlenskum vinum til að fá 7 milljarða lán í sama banka til að þykjast kaupa hlut í Högum fyrir hann. Mannfýlan er gjaldþrota og þar að auki spilafíkill. Hann getur bara farið í gjaldþrotaskipti eins og allir aðrir sem yfirskuldsettu sig og fá enga sérmeðferð. Hangið svo í spilakössunum á Monaco.

Tímar "Helvítis fokkíng fokks" eru liðnir.
Ég er að sigla inn í eitthvað "Andskotans djöfulsins helvítis skítapakk"-tímabil.

Ég hef verið mjög áfram um að gefa þessari ríkisstjórn séns. En þetta fer að verða ágætt. Nú þarf Jóhanna að slá á putta og segja "svona gera menn ekki", annars er það ekki ríkisstjórnin sem stjórnar landinu heldur góðærisgosarnir og útrásarpakkið. Þar með er engin ríkisstjórn eftir í þessu landi sem ég treysti. Og þá er ekki um annað að ræða en að segja undirbúning fyrir Kanadaflutninga á milljón.

Og var ég búin að minnast á að ég þoli ekki þegar ég lendi í að vera sammála Davíð Oddssyni?
Hvað þá Hannesi Hólmsteini?

21.11.09

Ójá!

Margt gæti maður nú tjáð sig um. Hið nýþvegna nafn Búnaðarbankans, leiksýninguna og tónleikana sem ég fór á í gærkveldi. Nokkrar mergjaðar gubbusögur eru ósagðar frá vikunni og svona. Já, og svo er ég komin með söluleyfi á Herbalife, ef einhvern langar í.

En einhvern veginn held ég ekki athygli við nokkurn skapaðan hlut nógu lengi til að forma setningar sem eitthvað vit er í. Þetta með viðutan prófessorana, Vandráð og svoleiðis, sem eru alltaf í sitthvorum skónum, mæta í vinnuna í náttfötunum ranghverfum og svona, mig er farið að gruna að í þessu sé algjörlega sannleikskorn.

Ég er strax farin að eiga ferlega erfitt með að fylgjast með. Svona í daglega lífinu. Veit sjaldnast hvort ég er að fara eða koma og er oft "dottin út" í miðju samtali og man ekki hvar það byrjaði. Ég get hins vegar alveg einbeitt mér þegar ég er í vinnunni. Þar er ég í einhverjum súperfókus og les og skrifa fræði eins og vindurinn. Og finnst það meiraðsegja gaman. En oft er alveg hunderfitt að láta heilann í sér ná utanum það sem maður er að lesa eða huga. Og það gæti verið mergurinn málsins. Þegar maður teygir svona mikið á heilanum á ákveðnu sviði þá virðist eitt og annað týnast.

Eins og að muna hvað maður var byrjaður að gera eða hvert maður er að keyra. Það er ekki umhverfisvænt hvað ég er oft búin að keyra einhverja vitleysu þessa dagana. Svo hef ég sjaldnast einu sinni grun um hvar ég lagði bílnum. Fyrir nú utan þegar ég gleymi að ég var á honum og er komin hálfa leið heim, labbandi. Já, og í gær fór ég í leikhús og skildi lyklana bara eftir í svissinum. Í ólæstum bílnum. Honum var samt ekki stolið. (Eðlilega.)

Ég er nú að vona að þetta lagist þegar verkefnafargani linnir í annarlok. Annars er bara eins gott að allir í kringum mig séu svakalega þolinmóðir, þessa dagana.

Aldrei að vita hvenær ég man næst eftir að blogga...

17.11.09

Oj

hvað það er orðið ógeðslega dimmt og kalt á morgnana. Og eftir þrjá mánuði... verður það ennþá svoleiðis. Ég er komin með leið á að hanga á feisbúkk og allir fréttavefir eru að sökkva í næstum sömu ládeyðu og lágkúru og fyrir Hrun. Semsagt, hef ekkert gaman af internetinu, lengur.
Hvað á maður þá að gera? Vinna bara?

Jæja... veitir svosem ekkert af.

13.11.09

Duddururuddudduuuu!

Farin á haustfund Bandalax íslenskra leikfélaga norður í Eyjafjörð.

Er að reyna að teygja eitthvað á ritgerðardrögum áður en ég fer.
Náði góðum árangri með auknu línubili, áðan.

En er ferlega sybbin. Yngsti sonurinn ku vera með gin og klaufaveiki og hélt foreldrum sínum heilmikið selskapinn í nótt. Hann fór til læknis í morgun en mátti að því loknu fara á leikskólann. Því miður. Ég væri alveg til í að við værum bara saman að leggja okkur núna. Í staðinn þarf ég að vera um helmingi gáfaðri en ég er, skrifa eitthvað gáfulegt um módernisma og fara í heilan haug af tímum um Brecht og Þætti úr menningarsögu og þrusa síðan heim, reyna að komast framhjá valkvíðanum og pakka einhverju niður, og svo bara uppí flugvél. Á föstudeginum þrettánda.

Ætla að vera dugleg að rífa gítara af fólki og æfa mig á þeim fyrir norðan.

Og reyna að ná knúsi af Eló minni og óska henni til hamingju með fertugsafmælið sem hún á á sunnudaginn.

Mér finnst ekki hafa komið "eðlileg" helgi síðan einhverntíma í fyrra.

12.11.09

Er erfiðara, betra?

Íslendingar snobba fyrir erfiði. Ef eitthvað er "vinna" þá er það "gagnlegt" og þar af leiðandi gott og mannbætandi. Fyrst á manni að finnast vinnan erfið. Það er grundvallarskilyrði fyrir því að maður sé "að gera gagn" og "eitthvað af viti." Svo má maður svo sem reyna að hafa gaman af því, ef maður endilega vill.

Æijá, það er ekki skrítið að við þurftum að bryðja öll þessi þunglyndislyf.
Ég vona að þetta viðhorf sé á undanhaldi. En ég sé það víða.
Erfiðara nám er kúlla. Eins heyri ég menn enn metast um fjölda vinnustunda á sólarhring. Og er þá greinilegt að magn er mikilvægara en gæði.

Mér gengur ævinlega betur með það sem ég finn ekki fyrir að sé vinna. Það sem mér finnst gerast algjörlega að sjálfu sér, ég á erfitt með að bíða eftir að fá að byrja á á morgnana og slíta mig frá, hvað sem klukkan er. Þegar ég dett ofan á eitthvað svoleiðis verður yfirleitt úr því eitthvað ferlega skemmtilegt sem ég fæ gríðarlegt lof fyrir, jafnvel verðlaun eða massafínar einkunnir. Eins og leikrit. Töskur. Eða sum skólaverkefni. Það sem mér finnst þó mikilvægast er að þetta eru þau verk sem ég er ánægðust með í sálinni. Margt af þessu ber umbunir í sjálfu sér. Eins og fjölskyldan mín sem ég fæ aldrei nóg af að leika við. Og öllum líður vel saman og eru hamingjusamari fyrir vikið.

Þegar ég ákveð hins vegar að eitthvað sé "vinna" eigi bara að vera "erfitt" og "gagnlegt" (svo ekki sé nú minnst á ef eina markmiðið er að græða peninga) þarf ég fljótlega að fara til læknis, fá geðlyf og fara í geðmeðferð.

Svoleiðis verkefni eitra ævinlega fyrir mér allt lífið.

Ekki svo að skilja að ég geti ekki stundað einhvers konar "vinnu". Gert það sama dag eftir dag, árum saman, jafnvel. En áhuginn og ánægjan af því þarf að vera frumhvatinn til þess. Ef það fer að verða erfitt, leiðinlegt, ja, eða "bara vinna" þarf ég að snúa mér að öðru.

11.11.09

Hrunamannaskattur

Allir brjálaðir yfir sköttum, og svona. Í gærkvöldi sá ég svo hvað þetta þýðir í peningum.
Og hnussaði.
Enda er ég svo ógurlega lánsöm að hafa engar tekjur til að borga skatta af.

Í hrunósköpunum man ég að ég velti fyrir mér hvort yrði til nógur matur. Hvort fluttar yrðu inn bleyjur eða hvort ég þyrfti að skipta yfir í tauið. Hvort það yrði hægt að hafa heitt vatn og rafmagn. Hamfaralíkingarnar voru þannig að þetta hljómaði allt eins og grunnþarfir væru í hættu.
Og nú ku "kreppan" vera "skollin á" og "með fullum þunga". Hmmm. Jú, ég hef ekki fundið nýja túttu af ákveðinni tegund á stútkönnu sonar míns, í svolítinn tíma. Það er nú allt og sumt.

Já, einhverjir eiga erfitt með að borga af húsnæðunum sínum. En manni sýnist það nú eiginlega vera auðleysanlegt sýndarvandamál. Allavega ráða bankar við að afskrifa milljarða af "eigendalausum" skuldum stóreignamanna hist og her. En það má ekki afskrifa skuldir hjá venjulegu fólki. Þá verða allir hinir, sem ekki eru í vandræðum, arfabrjálaðir. Ég skil ekki alveg þá rökfræði. Græði ég ef fullt af fólki fer á hausinn? Tapa ég einhverju þó skuldir "venjulega fólksins", peningar sem aldrei voru til nema í sjúkum dagdraumum Hannesar Hólmstens, verði afskrifaðar?
Svo þetta snýst nú eiginlega bara um sama vandamálið og áður.
Græðgi og græðgi.
Auðmenn standa enn undir nafni.
En á meðan þeir ganga lausir og stjórna meirihluta af verslun og viðskiptum í þjóðfélaginu, er samt skiljanlegt að fólk sé pirrað á því að þurfa að borga nokkurn skapaðan hlut.

Hvernig væri að setja á nýjan skatt?
Hrunamannaskatt.
Þar sem hrunvaldar þurfa að borga hundrað prósent skatta af öllu sem þeir græddu í góðærinu. Hverja krónu. Og það á jafnt við um menn í viðskiptalífi, pólitík og óvirkum eftirlitsstofnunum. Þetta eru þeir sem hafa ekkert nema gott af því að vera aðeins slyppir og snauðir á atvinnuleysisskrá. Láta sér að kenningu verða og skammast sín.
Svo má taka tímann á því hvað þeir verða lengi að kjafta sig upp úr súpunni og aftur farnir að selja landanum og heimsbyggðinni himin og jörð fyrir fúlgur.
Þetta eru nefnilega snillingar.

10.11.09

Kreppufýlan og KSÍ

Ég hef verið að greina nýja rödd í kreppuhjalinu. Hún hefur svo sem alltaf verið til staðar, en virðist færast í aukana. Nefnilega rödd fýlupokans. Hann hefur alltaf allt á hornum sér. Dæmir og fordæmir ríkisstjórnina og aðra sem eru að reyna að taka til eftir sukkið, finnst allir sem tjá sig vera annað hvort sjálfstæðismenn eða útrásarvíkingar og berist góðar fréttir sér hann sig samt knúinn til að taka þátt í umræðunni með svartagalli um að "Íslendingar séu"svona eða hinsegin og "það breytist aldrei neitt hér." Fyrir utan nú að "réttast væri að fara bara". (En fer svo aldrei neitt.) Það nýjasta er Þjóðfundurinn og stjórnlagaþing. Mér er fullkomlega óskiljanlegt hvernig menn geta látið tilraunir til löngu tímabærra samfélagsumbóta fara í taugarnar á sér.

Ég hef velt þessari geðvonskulegur umræðulínu fyrir mér. Hérna sýnist mér ekki vera beinlínis réttlát reiði í gangi. Engin krafa um makleg málagjöld. Ég velti því lengi fyrir mér hvort þarna væri á ferðinni einhvers konar "öfug sálfræði", þ.e.a.s., dulbúin hvatning, þar sem menn myndu bregðast við ef lýst væri vantrausti... en mér finnst það svolítið langsótt.

En nú held ég að ég sé búin að fatta þetta.

Það er bitra pakkið sem lætur svona. Þeir sem voru alveg að fara að græða á góðærinu. Hafa svosem ekki tapað neinu, nema draumnum um að vera ógeðslega ríkur. Manni með kreppufýlu finnst ógeðslega fúlt að bólan hafi sprungið. Honum var alveg sama þótt góðærið hafi verið gervi, hann vildi græða á því. Hann þolir ekki Nýja Ísland og þráir aftur gamla Ísland, með kampavíni, kavíar, ójöfnuði og sukkveislum. En það sjónarmið er einhvern veginn ekki inn. Þess vegna situr hann úti í horni, haugbitur, og agnúast út í allt og alla. Honum finnst ekkert neitt betra núna. Honum fannst allt betra eins og það var.

Svo það er ástæða fyrir því að raddir kreppufýlupúkanna pirra mig ósegjanlega.
Ég er hjartanlega ósammála þeim.
Ég er með kreppukæti.

---

Ég veit ekki hvort maður á einu sinni að byrja á KSÍ. Viðtalið í Kastljósinu í gær var allavega ein snyrtilegasta rassskelling sem framin hefur verið á íslensku spillingarpakki. Besta hugmyndin sem ég hef heyrt í framhaldinu er að ryðja þessum köllum úr stjórn, öllum sem einum, og láta stelpurnar taka við batteríinu. Enda eru það þær sem eru að meika það í boltanum, þessi árin, miklu meira en kallarnir.

Þessir háu strípikallar geta þá bara slegist í hóp kreppufýlupúka og látið sig dreyma um gömlu, góðu dagana þegar var bara beinlínis sjálfsagt að menn færu á strípibúllur og fyllerí á kostnað íþróttahreyfinga.

Fyrir Lottópeningana, btw, sem áhugaleikhúshreyfingin og aðrar áhugamannahreyfingar fá t.d. ekki að njóta hér, líkt og gerist í Noregi og Danmörku. Nei, þá er nú betra að þessir peningar fjármagni fylleríisferðir einhverra kalla í útlöndum.

Ég kalla eftir Nýja Íslandi í málið.

9.11.09

Hver vill verann?

ATTAC-samtök voru stofnuð á Íslandi í gær. Vel þess virði að skoða fyrir þá sem hafa áhuga á að peningahaugarnir dreifist á fleiri hendur.

Zeitgeist-hreyfingin er síðan vettvangur fyrir þá sem vilja peningahaugana burt, svona yfirhöfuð, og byggja hagkerfin á þeim jarðargæðum sem við þurfum raunverulega á að halda.

Var aukinheldur á stórskemmtilegu Complete Vocal námskeiði um helgina, og kann nú að syngja algjörlega. Lenti svo á stórskemmtilegum fyrirlestri hjá Herbalife-gaur í gærkveldi.

Annars hef ég engan tíma til neins. Ligg yfir Weimar-lýðveldinu. Það var nú spennandi. Fyrst kom hroki og stríð, svo kom hrun, þá byltingartilraun sem listamenn og hugsjónamenn leiddu en skilaði ekki tilætluðum árangri.
Þá kom þjóðremban og svo, í fyllingu tímans, Hitler.
Þetta hljómar nú eitthvað kunnuglega.

Hver pant vera Hitler?

7.11.09

Að kveðja

Það eru forréttindi að þekkja mikið af gömlu fólki.

Gamla fólkið sem nú kveður unnvörpum er til dæmis með "gömlu gildin" alveg á hreinu. Þessi sem almenningi á Nýja Íslandi gengur svo misvel að rifja upp. Þessi sem voru í gildi áður en allt fór að snúast um að græða eins mikið og er í mannlegu valdi og enginn gerði lengur neitt fyrir neinn.

Lára amma stóð í eldhúsinu. Oftast eldandi og bakandi ofan í ein 13 börn og milljón gesti. Það var alltaf pláss fyrir alla og nóg til frammi. Hún var alltaf kát. Það neikvæðasta sem ég heyrði hana nokkurn tíma segja var "Ég er nú svo aldeilis hissa!"

Síðasta samtalið sem ég átti við hana var fyndið. Hún var komin á sjúkrahúsið þá, ég var 27 ára og átti engan mann. Þetta þótti henni nú öldungis ómögulegt og ræddi það mjög. Það endaði með því að ég sagði henni, sísvona, að það þýddi ekkert að eiga þessa kalla, þeir drykkju allir svo mikið brennivín. Þá var hún sammála mér um að þá væri nú bara betra að eiga engan.

Það eru forréttindi að þekkja mikið af gömlu fólki.
Það fjölgar reyndar jarðarförunum.
En fólk sem vissi allan tímann að heilsast og kveðjast væri lífsins saga, hélt ekki að það yrði eilíft né færi með með veraldlegu auðæfin í gröfina, er gott að kveðja með ró og sátt.

Lára amma hvílir sko alveg örugglega ekki í neinum friði. Henni finnst hún sjálfsagt vera búin að gera nóg af því undanfarin ár.
Hún er að baka, og það eru margir gestir hjá þeim afa sem hún hefur ekki hitt lengi.
Kannski er hún meira að segja aldeilis hissa.

5.11.09

Þjóðmál – Heimsmál – Fjölskyldumál – Jarðarför

Jóhanna Sig. vill bjóða Haga upp. Í heilu lagi, bara. Það væri nú aldeilis fínt. Þetta getur enginn keypt nema bankapésarnir sem rændu okkur.

Einhverjir hafa stungið uppá að bjóða upp hverja "keðju fyrir sig". Þær eru eitthvað um 20. En það gildir einu. Engir nema virkilegir risastóreignamenn hefðu efni á að kaupa þær. Já, og svo leppar fyrir Bónusfeðgana sem eiga nú líklegast varasjóði einhversstaðar þar sem enginn má vita af þeim.

Mér finnst langhreinlegast að selja hverja búð fyrir sig. Þar með gæti venjulegt fólk tekið þátt og hugsanlega myndast smuga fyrir semí-heiðarlega viðskiptahætti og eðlilegt samkeppnisumhverfi á matvæla markaði að skapast.
Eiginlega finnst mér þetta eini möguleikinn sem eigi að koma til greina.

Fyrst verða þeir sem eru rúnir auði
að öðlast mola af hinu stóra brauði.

(Brecht/Weil)

---

Annars fór ég á Capitalism – A Love Story í gær. Ýmislegt magnað er að gerast í Bandaríkjum Ameríku. Ég var mjög hrifin af rekstrarformi sem er farið að skjóta upp kollinum, þar sem starfsmenn mynda stjórn fyrirtækisins og skipta ágóðanum alveg hnífjafnt. Og svo fólkið í Chicago (minnir mig það hafi verið) sem tók húsið sitt tilbaka, eftir að hafa verið borið út. Það er hreinlega verið að reyna að hnekkja auðmannaveldinu og það er séns að Obama sé að hjálpa til við það.
Annars grét ég eins og garðkanna yfir seinni hluta myndarinnar. (Svo ekki sé nú minnst á lokalagið.) Eins og ég var undir gríðarlega miklu af ræðuhöldunum í búsáhaldabyltingunni. Þó ekkert annað gerist þá er ræðuhöld og annar málflutningur sem knúinn er að hugsjón um einhverskonar réttlæti og jöfnuð í þjóðfélögum heimsins nokkuð sem ég átti ekki von á því að lifa að sjá í þessu lífi. Ekki eftir græðgisklikkun undanfarinna ára.

---

Við Friðrik erum heima, þriðja daginn í röð. Hann er með magapínu og eyrnabólgu. Kominn á pensillín sem lagar eyrnabólguna en hreint ekki magann. Ég er líka með einhverja magapínu og er búin að ganga fyrir vatni einusaman í þrjá daga. (Búin að missa svona eittoghálft kíló!)

---

Svo á Rannsóknarskip afmæli í dag. Gaman fyrir hann.
Svona fyrir utan að ég er að fara austur í kvöld og verð þangað til annað kvöld.

Þar ætla ég að kistuleggja og jarða hana Láru ömmu mína sem fékk hvíldina um síðustu helgi, södd lífdaga og ríflega það. Hún eignaðist hundraðfimmtíuogeitthvað afkomendur á meðan hún lifði, bjó lengst af úti í sveit og var alltaf með fullt hús af börnum og gestum. Síðasta samtal sem ég átti við hana átti sér stað fyrir nokkuð mörgum árum síðan, en síðustu ár hefur hún ekki mikið getað tjáð sig. Þá var ég tuttugu og sjö ára og hún hreint rasandi yfir því að ég ætti ekki mann. Þá ákvað ég að spila aðeins með hana, svona af því að hún var bindindiskona, og sagði eitthvað á þá leið að það þýddi ekkert að eiga þessa kalla, þeir drykkju allir svo mikið brennivín. Og hún var nú sammála því, að þá borgaði sig nú frekar að eiga engan.

Og hún lagði svo á og mælti um að við nöfnur hennar skyldum verða kistuberar, svo það er eins gott að vera skikkanlega til fara og haga sér.

4.11.09

Afrek

Ávinningurinn af að þurfa að vera heima heilan, sem nauðsynlega hefði þurft að fara í ritgerðarskrif, með lítinn pestargemling, er ýmis. Þar sem ég er aðframkomin af stressi yfir að vera ekki í skólanum að hamast við að ritgerða er ég einkar atorkusöm og búin að afreka eitt og annað.
Eins og:
~ Taka ferlega mikið til. (Sem hefði nú reyndar gengið betur ef sá stutti hefði ekki endilega viljað hjálpa MIKIÐ til.)
~ Ganga frá hverri einustu pjötlu hreins þvottar af allri fjölskyldunni. (Hugsanlega ekki alveg öllu á rétta staði, þó, vegna áðurnefndrar hjálparhellu.)
~ Hringja í augnlækni fyrir hönd auga Smábáts sem er ekki hætt að hafa sýkingu þrátt fyrir hálfan mánuð á tvíþættum ofurkúr. (Augnlæknir ætlar að hringja síðar.)
~ Panta tíma hjá lækni seinnipartinn fyrir Hraðbátinn sem er með einhverja undarlega pestarblöndu af magapest, hósta og raddleysi auk þess sem ég hef eyrun grunuð um að vera með vesen. Samt engan hita. Svo þetta er allt ferlega grunsamlegt.
~ Komast að því að þurrkarinn er léttari en þvottavélin.
~ Skrúfa þvottavélina í sundur.
~ Finna ekki hvers vegna hún vindur ekki almennilega.
~ Skrúfa þvottavélina saman aftur.
~ Þrífa á bak við þvottavél og þurrkara áður en allt var setta aftur á sinn stað.
~ Þrífa myglmundinn úr baðherbergisloftinu sem kemur alltaf í heimsókn í of miklum raka, sem kemur ef einhver vogar sér að loka baðherbergisglugganum eða þvottavélin vindur ekki almennilega, og gæti líka hugsanlega verið þáttur í veikindum Hraðbátsins.
~ Panta viðgerðarmann fyrir þvottavélina.
~ Fatta asnalega skyrtutakkann sem var inni og líklega ástæða þess að þvottavélin var ekki að vinda almennilega.

Næst á dagskrá er að hringja skömmustuleg í viðgerðarverkstæðið og ljúga því einhvernveginn að þvottavélin hafi lagað sig sjálf.

Segiði svo að svona dagar fari í vitleysu.

2.11.09

Skýring á geðvonskunni?

Ég er búin að vera bókstaflega miður mín af geðvonsku síðan svona um kvöldmatarleytið. Hreinlega varla verið líft nálægt mér. Reyndi að vera ekki hræðilega vond við börnin, en þurfti að taka á öllu mínu.

Svo mundi ég að það var fullt tungl... ekki að ég taki venjulega eftir því en möguleg skýring.

Svo var ég að fá sms frá Svandísi vinkonu minni, hún skellti í heiminn einni 18 marka dömu áðan. Á tveimur tímum sléttum frá fyrsta verk. Ekki skrítið að kosmíska orkan hafi verið í einhverju fokki.

Elsku Svandís og Jonathan,
Til hamingju með litlu nornina hana Lilju Katherine, sem fæddist í fullu tungli á Allrasálnamessu. Með þessum líka látunum.

Hvaða andskotans viðkvæmu mál?

Já, andskotinn forði því nú að við fáum að vita hvernig er búið að selja okkur í alþjóðahóraríið. Jóhanna og Steingrímur valda mér gríðarlegum vonbrigðum ef ætla að treysta á að við tökum ekki eftir því þegar við verðum tekin í ósmurt. Og eitthvað gekk bankastjóragerpinu í Kaupthinking illa að kjafta sig í kringum afskriftamálin hjá Baugi.

Það lá við að maður heyrði í gegnum samtalið símtalið sem hann var nýbúinn að hringja:
- Heyrðu, Nonni, þetta gengur víst ekki með 50.000 kúlurnar, eins og við vorum búnir að ákveða. ... Já, neinei, ég lýg bara einhverju í bili. Svo finnum við eitthvað út.

Helvítis andskotans svínarí.
Liðið sem við kusum í þessum langþráðu kosningum í vor þarf að fara að taka til í spillingarhítinni. Og það fljótt. Mér líður ekki vel að vera sammála Bjarna Ben. Reyndar gleymir hann alveg að minnast á að hann að hanga á aurakrossinum við hliðina á útrásarvíkingunum og Davíði. Og mér þætti gaman að vita hvað hann hefur fengið marga milljarða uppí galopið þvert og hurðalaust út á helvítis smettið á sér.

Mikið er nú ágætlega heppilegt að maður skuli á öllum tímum geta fundið eitthvað í "ástandinu" til að skeyta skapi sínu á þegar maður er, til dæmis, illa sofinn og úrillur.
---
Jáh, svo er víst fullt tungl...

1.11.09

Messa allra heilagra

Skemmst frá að segja að eitt gerðist ekki um þessa arfaindælu helgi. Ég tók enga mynd af börnunum. Ekki eina einustu. Þrátt fyrir geðbilað fagurt veður í dag og fagurt til myndatakna. En ég ætla að gera það... alveg bráðum. Það þarf eiginlega að fara að hugsa fyrir jólakortunum.

Annað í fréttum, fékk krasskors í sölumennsku hjá Hörbanum í dag. Þarf bara að lesa einhver ósköp og gera dáldið... og þá fæ ég afslátt af öllu stöffinu sem ég borða. (Og má reyndar líka selja, ef einhvern langar að prófa.) En á eftir að auglýsa það nánar seinna, þegar ég veit eitthvað.

Og svo var ég á fínni einþáttungasýningu hjá Hugleik. Það mátti sjá 6 snilldarlega skrifaða og leikna einleiki, afrakstur námskeiðs hjá Agnari Jóni Egilssyni. Allir voru flottir og stóðu sig með stakri prýði, engum blöðum um það að fletta.

Mér fannst svolítið fyndið, í ljósi kreppunnar, að allir sögðu þeir frá erfiðum tímum og einmanalegum lífum. En kannski er einmanaleiki í eðli einleiksins? Sumir voru alveg meinfyndnir, aðrir ógurlega tragísk drömu og svo allt þar á milli og í bland. En eitthvað þema með að yfirstíga... eða ekki... erfiðleika, fann ég svolítið.

Þetta gerist aftur á morgun. Hugleikhúsinu klukkan 20.00, að staðartíma. Og kaffi og kökur og svona.

31.10.09

Að lifa október af. 31. dagur.

Og eitt ráð að lokum.
Joss Whedon. Og mikið af honum. Hann býr til sjónvarpsþætti.

Efni sem til er. er, í öfugri tímaröð:
Dollhouse, 2 seríur
Angel, 5 seríur
Firefly, ein sería + kvikmyndin Serenity
Og síðast en ekki síst
Buffy the Vampire Slayer, 7 seríur

Við hjónin erum að hefja vegferð um 4 seríu af því síðastnefnda, í annað sinn. (Þ.e.a.s., hann í annað sinn, ég í u.þ.b. skrilljónsta.)
Í kvöld rifjaði ég til dæmis um sæmdarviðurnefnið "Evil Bitchmonster of Death." Sem ég hefi hugsað mér að vinna mér inn á lífsleiðinni. Hugsanlega í einhverskonar kennslu eður leikstjórn.

30.10.09

Að lifa október af. 30. dagur.

Ég veit ekki hvort að er annríkið, hörbað, hlaupin eða hreinlega að taka einn dag í einu og blogga á hverjum degi um ástandið, en þessi október hefur verið hreint ljómandi. Það hefur allur fjandinn komið uppá, orðið sprenging í þýðingavinnu og tímaleysi í ýmislegt mikilvægara setið á hakanum. Heimilið er til dæmis búið að vera frekar mikið eins og eftir gereyðingarárás. Fjármálin eins og þau eru þegar maður sér fyrir fimm manna fjölskyldu á einum kennaralaunum og allt bara ferlega stressað.

En mér hefur samt gengið hreint ljómandi að halda geðinu.

Nú er komin helgi og það eina sem er á planinu er að taka einhverjar myndir af börnunum og hlaupa einu sinni reglulega langt og einu sinni minna langt.

Já, og svo gerist ég sölumaður (dauðans) frá og með sunnudegi. Ef einhvern langar í Herbalife.

Á morgun er síðasti dagurinn í október. Þá ætla ég kannski að nenna að skrifa um Nígeríusvindlið og svona.

29.10.09

Listrænar upplifanir

Þrátt fyrir annríki hef ég upplifað eftirfarandi á undanförnum dögum.

- Kúlsta plott twist EVER í sjónvarpsþætti. Mæli með Dollhouse, nýjustu framleiðslu Joss Whedon, sem eins og allir vita er Guð.
- Stig Larson er ekkert að djóka. Saga eftir hann endar ekkert með kaffi og kruðum eftir að allt ofbeldið er búið. Stúlkan sem lék sér að eldinum er spennandi fram á síðasta orð.
- Svo fór ég á Nígeríusvindlið. Þið vitið hvernig þetta er þegar maður er að horfa á allskonar tilraunaflipp sem maður veit ekki hvert ætlar og svo stendur allt í einu Páll Rósinkranz á sviðinu og syngur Think of Angels? Ekki? Þá hafið misst af þessu.

Er annars alveg að fara að fara að sofa. Eða svona... að fara að fara að fara.

Að lifa október af. 29. dagur.

Hitti leiðbeinandann í gær og fékk fyrirmæli um eina af hinum fjölmörgu ritgerðum sem fyrirhugað er að ég skrifi í nóvember. Fór í framhaldinu í Bókhlöðuna í morgun og tæmdi hana. Hugsanlega eftir smá ryk í hornunum þar, annars bara starfsfólk.

Er líka með þýðingu.

Semsagt urlað að gera.

Og kaffibaunalaust í vinnunni, annan daginn í röð.

Andsk.

28.10.09

Að lifa október af. 28. dagur.

Jæjah. Þá eru bara tvær konur sem ég þekki bálóléttar og komnar 40+ á leið. Ja, sem ég veit af og er í sambandi við á feisbúkk. Sigga Rósa og Einar Hafberg eignuðust stóran strák í gærkvöldi og sleppur Hraðbáturinn þar með við að vera eini strákurinn í stelpnagerinu þegar við hittum þau og Völu, vinkonu Freigátunnar, og fjölskyldu, um ókomin ár. Hann er feginn.

Ég hef hins vegar verið að glíma við margvíslegar vangaveltur undanfarið og hefi ályktað ýmislegt. Eitt er þetta:

Þegar andófsmaður fær völd breytist ádeilan í áróður.

Þetta er líklega svolítið vandamálið við byltingar.

Horfði annars á Hrunið í gærkvöldi og endurupplifði byltinguna. Annars fannst mér gert gríðarlega mikið úr átökum og ofbeldi en allt of lítið úr því sem máli skipti. Byltingunni sjálfri. Sem fór fyrst að hafa áhrif eftir að hún varð appelsínugul. Satt að segja er ég helst á því að það hafi verið síðasti mótmælafundurinn sem gerði útslagið. Þá var ljóst að útspil Geirs H. Haarde með kosningar um vorið og ályktanir Reykjavíkurdeildar Samfylkingar dygðu ekki til að sefa óánægju almennings. Og svo ræða Guðmundar Andra. Ég fæ enn gæsahúð við tilhuxunina.

Ég held að fráfarandi ríkisstjórn hefði unnið mörg prik með því að viðurkenna að hún færi frá vegna sterkrar kröfu úr samfélaginu. Skoðanakannanir um svipað leyti sýndu að um 70% þjóðfélagsins studdu kröfur mótmælenda. Þó sitt sýndist hverjum um aðgerðirnar. Það er hyggin ríkisstjórn sem lætur að slíkri kröfu. En ég sakna Geirs H. Haarde og Halldórs Ásgrímssonar þegar ég hlusta á baulið í Bjarna Ben og Sigmundi Davíð. Hvílíkir angurgapar. Enda hef ég á tilfinningunni að nú sé restin af fylginu að rjátlast af Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn mun minnka mikið þegar fram kemur almennilegt framboð fyrir hægri græna.

Bleh... Ég ætlaði ekki að missa mig í pólitík í morgunsárið. Þetta er örugglega andi Guðlaugs Þórs sem hefur skilið eftir einhvern óhroða í sál minni með því að vera að þvælast hérna í gær.
Svo er líka kaffilaust.

27.10.09

Til þeirra sem ekki skilja gleðina yfir brotthvarfi MacDonalds

Málið er að hingaðkoma þeirrar keðju markaði upphaf hins uppdiktaða góðæris þess sem síðan hefur farið hér með efnahag allra til fjandans. Með þann sem tróð í sig fyrsta biggmakknum í fararbroddi.

Brottför þessa merkis úr landinu er ekkert annað en táknræn. Enginn missir vinnuna, heldur verða nokkru fleiri störf í tengslum við hið verðandi "Metró" þar sem hinar nýju hamorgarabúllur munu brúka íslenskt hráefni.

Því er ekki að undra að húrrahrópin endurómi.

Og það fer í taugarnar á mér þegar fólk talar um að eitthvað gerist "í netheimum." Puttar okkar sem tjá sig þar eru í kjötheimum og skoðanir líka.
Þetta er allt sami heimurinn.

Að lifa október af. 27. dagur.

Skilja mátti á fésbókarfærslu Svandísar minnar í gær að nú væri hún farin á fæðingardeildina. Síðan hefur ekkert frést. Ég hefi trú á að nú sé enn ein æsispennandi útvíkkunarsagan í fæðingu. Bókstaflega.
---
Neibb, þetta reyndist bara gabb hjá þeirri (enn) ófæddu. Þar með þekki ég nú þrjár konur sem eru að hamast við að ganga frammyfir og hef ekki við að vorkenna þeim.
---
Mikið hroðalega svindlaði maður nú annars á megruninni um helgina. Tók herbalæfið ekki með norður, hljóp ekkert að neinu ráði og hagaði sér almennt óskynsamlega. Enda finnst mér ég vera hundrðogáttatíu kíló og er finn fyrir gríðarlegri löngun út að hlaupa svona 10 kílómetra. Ekki tími til þess í dag, en seinnipartinn er þó einhver tæplega klukkutíma smuga sem mun brúkast úr í ystu æsar.

Svo langar mig hrikalega að sjá Nígeríusvindlið og nýju Mikael Moore myndina. Verð að búa til tíma fyrir það.

Og október er bara að verða búinn!
Sijitt hvað ég þarf að skrifa margar ritgerðir í nóvember.

26.10.09

Að vera eins og heil hreppsnefnd í framan

Þjófstolið af bloggi Láru Hönnu. Sem allir ættu, bæðevei, að lesa alltaf. Frekar en mbl og deffffinetlí frekar en vísi.

Í bókinni Stríð og söngur, eftir Matthías Viðar Sæmundsson, sem kom út hjá Forlaginu árið 1985 er viðtal við Guðrúnu Helgadóttur þar sem Vilmundur kemur við sögu. Guðrún hefur orðið:

"Stjórnmálalmenn eru haldnir þeirri villutrú, að tilfinningalíf og stjórnviska fari ekki saman. Flestu fólki hættir raunar til þess að skipta daglegu lífi sínu í hólf þar sem ekki er innangegnt á milli. Á daginn nota menn vitið, á nóttunni Guðrún Helgadóttir, rithöfundur og fyrrverandi alþingismaður ástina, og listina við sýningaropnun á laugardagseftirmiðdögum. En vit ástar og lista er engin viska, ekki heldur stjórnviska.

Þær konur sem ganga inn í heim þeirra stjórnmála, sem karlmenn hafa búið sér til, ættu að forðast þetta sundurhólfaða líf. Við eigum einmitt að opna á milli hólfanna. Það er engin ástæða til að vera eins og heil hreppsnefnd í framan þó að maður sé á þingi. Því síður er það fólk traustvekjandi sem misst hefur lífsneistann úr augunum.

En lífsneistinn er kulnaður, af því að allir eru að þykjast. Auðvitað eru allir að skrökva, að sjálfum sér og öðrum. Engri manneskju er þetta líf eðlilegt, en fæstir þora að opna á milli. Hvers vegna skyldi ekki geta verið gaman að sitja á Alþingi? Alþingi ætti að vera staður gleði og tilhlökkunar. Til hvers erum við þarna? Til þess að gera líf fólksins gott og fallegt. Eða hvað?

Nei. Aðallega eru þarna ábúðarmiklir karlar að lesa hver öðrum tölur úr Fjárhagstíðindum og skýrslum Þjóðhagsstofnunar, dauðir í augunum. Orð eins og börn, konur, list, ást hamingja, fá menn til að fara hjá sér, þau bera tilfinningasemi vott. Og tilfinningar eiga ekki heima á Alþingi. Innst inni finnst þeim konur ekki eiga að vera þar heldur. Þeir eru svo hræddir um að við gleymum vitinu heima á morgnana og komum með ástina með okkur í vinnuna.

Stundum sakna ég Vilmundar. Hann átti það til að taka vitlausa tösku."

23.10.09

Ljóð leikritahöfundar (brot)

I
Ég er leikritahöfundur. Ég sýni
það sem ég hef séð. Á mannamörkuðum
hef ég séð hvernig menn ganga kaupum og sölum. Það
sýni ég, ég, leikritahöfundurinn.

Hvernig þeir ganga inn í herbergi hver hjá öðrum með ráðagerðir
eða gúmmíkylfur eða peninga
hvernig þeir bíða standandi á götum úti
hvernig þeir brugga hver öðrum banaráð
fullir vonar
hvernig þeir bindast fastmælum
hvernig þeir hengja hver aðra
hvernig þeir elskast
hvernig þeir verja ránsfeng sinn
hvernig þeir matast
það sýni ég.

Orðin sem þeir kalla hver til annars hermi ég.
Hvað móðirin segir við son sinn
hvað vinnuveitandinn fyrirskiptar vinnuþeganum
hverju eiginkonan svarar manni sínum.
Öll hin biðjandi orð, öll hin skipandi
hin auðmjúku, hin tvíræðu
hin lognu, hin fávíslegu
hin fögru, hin meiðandi
öll hermi ég.

Ég sé snjóflóð steypast fram.
Ég sé jarðskjálfta ríða yfir.
Ég sé fjöll standa á miðjum veginum
og fljót flæða yfir bakka sína.
En snjóflóð eru með hatt á höfðinu.
Jarðskjálftarnir hafa peningaveski í vasanum.
Fjöllin bera sig um í bifreiðum
og fossandi fljótin njóta lögregluverndar.
Það afhjúpa ég.

II
Til þess að geta sýnt það sem ég sé
kanna ég leiklist annarra þjóða og annarra tíma.
Fáein leikrit hef ég umritað af nákvæmni
rannsakað tækni tímabilsins og tileinkað mér
það sem mátti að gagni koma.
Ég kynnti mér lýsingar á hinum voldugu lénsherrum
í verkum Englendinga, þessum auðjöfrum
sem verja til þess ævinni að magna veldi sitt.
Ég kynnti mér hina siðavöndu Spánverja
og Indverjana, meistara fagurra tilfinninga
og Kínverja, sem lýsa lífi fjölskyldnanna
og marglitum örlagavegum borganna.

III
Og svo ört breyttist á minni tíð
útlit húsanna og borganna að eftir tveggja ára fjarveru
var heimkoman ferð til annarrar borgar
og múgur manns breytti um útlit
á fáeinum árum. Ég sá
verkamenn ganga inn um verksmiðjuhlið og hliðið var hátt
en þegar þeir komu út aftur urðu þeir að beygja sig.
Þá sagði ég við sjálfan sig:
Allt breytist og er bundið sínum tíma.
Hverju sjónarsviði gaf ég þess vegna sitt auðkenni
og merkti með ártali hverja verksmiðju og hvert herbergi
eins og bændur brennimerkja fénað til þess að hann þekkist.

Og setningarnar sem sagðar voru
auðkenndi ég einnig svo þær urðu eins og orð
hinna forgengilegu sem skrifuð eru upp
til þess að þau falli ekki í gleymsku.

Það sem konan í vinnusloppnum sagði
álút yfir dreifiblöðunum – á þessum árum
og hvernig kauphallarbraskarar töluðu við ritara sína
með hattinn aftur á hnakka – í gær
– á það setti ég mark forgengileikans
með réttu ártali.

En allt gerði ég að undrunarefni
jafnvel hið alkunna.
Þegar móðirin gaf barni sínu brjóstið
sagði ég frá því eins og enginn mundi trúa mér
og eins og óþekktu fyrirbæri lýsti ég því
þegar dyravörðurinn skellti hurðinni á hinn klæðlausa.

Bertolt Brecht
Þýð. Þortsteinn Þorsteinsson

Að lifa október af. Dagur 23 - 26.

Í morgun var alveg kolsvartamyrkur þegar ég skilaði drengnum á leikskólann. Á móti kemur að það eru víst ekki nema svona tveir mánuðir í jól.

Til að stytta það sem eftir er af október aðeins er gott ráð að brúka vetrarfrí grunnskólafólks í fjölskyldunni og þruma út á land. Við ætlum í norðrið á eftir. Þar skal tjillað ógurlega alveg fram á mánudag. (En hlaupaskórnir eru nú samt með í för.)

Það verður annars að segjast að þetta er með auðveldari októberjum. Ég veit ekki hvort það eru hlaupin eða gítarspileríið, hvurttveggja hjálpar allavega til, eða annríkið, tíminn flýgur allavega ferlega mikið á því. Ég er allavega að fara að gera góðan haug af verkefnum í nóvember en er bara ekkert sérstaklega á tauginni. Mér finnst líklegt að ég klári það sem ég á að klára og svona.

Svo vilja menn ferlega heyra hvað ég segi þessa dagana. Var með fyrirlestur í Brecht-tíma um daginn, er að fara að messa yfir dramatúrgíunemum á BA stiginu á eftir og er að fara í heimsókn í MH í næstu viku hvar leiklistarnemar ku vera að leika sér með Unga menn á uppleið.

Ferlegt stuð í því, bara.

22.10.09

Ellefu manns sem ég hlusta á

Í framhaldi af spekúleringum um fjölmiðlastríðið er eitt orðið ljóst. Þeir hafa allir ákveðna málstaði/einstaklinga að verja.

Svona fyrir utan það eru allir fréttamiðlar að missa sig í kreppukláminu. Í dag er frétt ekki frétt nema í henni sé hamfaraspá. Þessi sérfræðingur talar um greiðsluþrot, annar um lélegra lánshæfismat, og heimsenda- og hamfarahugtökum og líkingum strá menn í kringum sig sem aldregi fyrr.
Hvað er að gerast í raun og veru?
Ja, það er rigning úti og fólk er örugglega almennt bara í vinnunni.

Guði sé lof fyrir internetið, á svona tímum. Þar tekur hins vegar við manni frumskógur. Ég er farin að átta mig á landslaginu. Suma miðla líður mér oftast vel með að lesa. Það sama á við um blogg. Ég meika ekki AMX og Björn Bjarnason, boycotta bæði mbl og vísi alveg markvisst. Ef eitthvað "raunverulegt" er að gerast má yfirleitt lesa það á milli línanna í sjónvarpsfréttum RÚV á kvöldin. Samt ekki fyrr en í þriðju frétt, á eftir nokkrum kreppukláms ekkifréttum um að einhver hafi sagt eitthvað.

Um daginn ákvað ég að skilgreina fyrir sjálfri mér hverja ég vildi hlusta mest á. Hugmyndir hverra mér þætti best að byggja nýtt og betra þjóðfélag á, þegar stríðinu lýkur. Sumir þessara einstaklinga eru reyndar líka með hugmyndir um skítmoxturinn, jafnvel aðallega. Gríðarlega margir eru nálægt því að komast á listann, en í dag er hann svona:

Eva Joly
Páll Skúlason
Vigdís Finnbogadóttir
Njörður P. Njarðvík
Jóhanna Sigurðardóttir
Andri Snær Magnason
Lára Hanna Einarsdóttir
Þorvaldur Þorsteinsson
Silja Bára Ómarsdóttir
Ólafur Stefánsson
Halla Gunnarsdóttir

Ellefu manns sem ég vil hlusta á og lesa.

21.10.09

Að lifa október af. Missti næstum af 21. degi.

Féll ekki verk úr hendi í allan dag. Bókstaflega. Hvorki tími til að hlaupa né skipta um strengi í Gerðari Fender.
Mæli ekkert sérstaklega með því.
Það er geðheilsunni bráðnauðsynlegt að slæpast.

Ætla að standa mig betur strax á morgun.

20.10.09

Að lifa október af. Bjartsýniskast á 20. degi.

Ég er alltaf að komast betur og betur á þá skoðun að eignar- og tangarhald spillingararmanna tveggja á fjölmiðlum sé af hinu góða. Nú djöflast menn á hæl og hnakka, Jón Ásgeir og útrásarpésarnir annars vegar og Davíð og náhirðin hins vegar, við að moka skítnum af góðærisbullinu hvor á annan. Þeir gera þetta af mikilli heift, rætnum hug og öllum þeim skítmennaskap sem þeir eiga til. Það er gott. Fín rannsóknarblaðamennska í gangi á báða bóga sem á örugglega eftir að hjálpa til við rannsóknir á orsökum efnahagshrunsins.

Með illu skal illt út reka og það sem menn eru ekki að átta sig á er að þetta eru tveir armar af sama siðspillta búknum og haldi menn svona áfram verður ekkert eftir af hvorugu þegar slagnum linnir.

Þegar upp verður staðið lifa bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking stríðið af. Enda kemur þetta þeim sem stjórnmálaöflum ekki við nema að litlu leyti. En þeir báðir verða betri flokkar og heilli í hugsjónum sínum varðandi stjórn landsins þegar búið verður að hreinsa úr þeim ruslið. Það sem eftir stendur, eftir stríðið, verður vonandi heilbrigðara stjórnmálalíf, viðskiptalíf, fjölmiðlalíf og þjóðfélag.

19.10.09

Gerðar Fender

Þegar maður spókar sig sveittur í hlaupagallanum um háskólalóðina uppsker maður stundum nokkur ill augnaráð einstaklinga með samviskubit í líkamsræktinni. En það var fyndið að snúa aftur úr hlaupum í dag, í hlaupagallanum með umbúðalausan gítar á bakinu. Og storma beinustu leið inn í íþróttahús.

Í gítartímum er ég að læra fleira en gítarleik. Til dæmis er ég að komast inn í málheim strömmara. Það eru svona kallar yfir fimmtugt sem strömma af innlifun í öllum útilegum (býst ég við) kunna "Minning um mann" og "Stál og hníf" afturábak og áfram og finnst reglulega mikil framúrstefna að læra Sálarlög og "Ó, Gunna."
Þeir ræða gjarnan ágæti hljóðfæranna sinna fyrir tíma. Fara þá mikinn í umræðu um "standard og gæði" og nota orð eins og "græjur" og "verkfæri". Ég tek lítinn þátt, en ku eiga að fá mér "almennilega græju" þar sem gamli nælonstrengjagítarinn hennar Báru er víst "vonlaust verkfæri." Eins og áður sagði fékk ég líka aðeins að kenna á honum í síðasta tíma, ekki af því að hann skorti hljómfegurð (eins og strömmgengið vill meina) heldur er hann heldur hálsbreiður fyrir vora fíngerðu fingur.

Gaman verður að sjá í andlitin á liðinu þegar ég mæti í næsta tíma með græjuna hann Gerðar, sem er af tegundinni Fender (sem allir vita að er kúlst í heimi) og þar að auki svartur eins og erfðasyndin.

Er Sigmundur Davíð lýðskrumari?

Góð spurning.
Ég held samt að honum gengi betur í skruminu ef hann væri jafn mjór og sætur og hann var þegar hann var að vinna á RÚV í kringum 2000.
Hvað ætli hafi eiginlega komið fyrir hann?

Mín persónulega kenning er að hann hafi étið Finn Ingólfsson.
Það útskýrir líka spillingarfnykinn af honum, og svona.

Að lifa október af. Dagur 19.

Þá er að taka á honum stóra sínum. Það þarf virkilega að fara að taka á verkefnafargani annarinnar og bæta upp hlaupaleysið frá um helgina, en til þess gafst hreint enginn tími, þá.

Í öðrum helstum og óspurðum fréttum ætla ég að fá lánaðan gítar hjá henni Gerði í dag. Ég reikna með að mikil fagnaðarlæti upphefjist í gítartímanum mínum þegar hann fær að fara með mér þangað. Kallarnir þar eru búnir að vera ferlega rasandi yfir því að ég sé að hamra á gítar með svona feitum hálsi, með mína litlu putta. Þeir eru síðan allir með risakrumlur og koma puttunum á sér ekki fyrir hlið við hlið á sínum hálsmjóu köntrígíturum. Og myndu aldrei skipta yfir í hálsbreiðari klassíska gítara og skilja heldur ekki hvað ég er að gera með svonleiðis, þar sem "það heyrist ekkert í þeim."
Ég hef látið vera að útskýra að ég hafi nú ekkert hugsað mér að vera mikið að strömma "Ó, Gunna" undir fjöldasöng... Þessu er misskipt.
Staðreyndin er hins vegar sú að ég er með ponkulitlar hendur og í síðasta tíma vorum við ógurlega mikið í asnalegum hljómum sem taka yfir 5 bönd og rythmaæfingum um leið og litla vinstri höndin mín var nú bara að detta af. Svo ég ætla að athuga hvort hann Gerðar gæti kannski eitthvað lagað handheilsuna.

Þetta var nú mikið rant.
Undanfarið hef ég ekki haft tíma til að láta október bögga mig mikið.
En það fer kannski að koma...

Að lifa október af. Dagur 18 sem gleymdist.

Ekkert húsráð birt í gær.
Það var vegna þess að Obama át allan daginn, með hnakk og beisli.
Skömmin á'onum.

17.10.09

Að lifa október af. Dagur 17.

Það getur alveg bjargað deginum að heyra góðan kreppufrasa sem útskýrir það sem manni finnst í einni setningu. Sá eina svoleiðis hjá Grími Atlasyni í dag. "Vandinn liggur í fylleríinu, ekki timburmönnunum."

Nákvæmlega.

Góðærið var rugltíminn. Hrunið var bara það sem gerðist þegar rann af mönnum. Svo skiptist þjóðin alveg þvert í þá sem vilja beint aftur á fyllerí (fleiri álver, virkjanir, ja það sem menn kalla einu nafni "framkvæmdir" sem skapa kallastörf og tímabundinn gróða) og þá sem vilja láta sér að kenningu verða (byggja upp sæmilega stöðugt samfélag, huga að umhverfismálum og hætta í rússíbananum.)

Það vantar flokk fyrir hægri græna.

16.10.09

Að lifa október af. Dagur 16.

Berst hatrammri baráttu við samviskudrauginn. Er búin að vera að skanna yfir nokkra texta í morgun og er að verða komin með upplegg í eina "litla" ritgerð... (einhverntíma hefði maður nú samt ekki notað það lýsingarorð um 30 - 40 bls., en í samhengi við doktorshroðann er þetta nottla pínöts) og er nokkurn veginn komin með fyrirlestur sem ég á að flytja á þriðjudaginn. Nennisiggi er kominn í heimsókn og mig langar að stinga af eftir hádegi. Fara heim - út að hlaupa - í lengra bað en maður getur leyft sé með stóðið heima - spila á gítar þangað til tími er kominn til að sækja liðið á leikskólana.

En auk samviskunnar sem þvælist fyrir er komið rok og rigning. Það er talsvert laust við að ég nenni að hlaupa í þessum fjára. Eða hvað? Veðurspáin spáir áframhaldandi rigningu svo langt sem augað eygir. Og ef áætlaður árangur í kílóafækkun á að nást í október fer ekki hjá því að mar verði að galla sig upp og harka af sér, líklega alveg nokkrum sinnum.

Sé annars alveg jafnvel fram á að síga niður í 70 kílóin áður en mánuðurinn er úti. Man þegar ég fór í fyrsta sinn upp í þau. Jólaævintýri Hugleix var um þær mundir 70 blaðsíður og ég komin slatta af mánuðum á leið og orðin spikfeitari en mér þótti þægilegt. Hefði líklega lagst í yfirlið, sorgir og eilífðarsút, hefði einhver sagt mér að fjórum árum síðar ætti ég í baráttu við að koma mér NIÐUR í þennan kílóafjölda. Algjörlega ó-ólétt. Össsss.

Já, ég held að það sé bara regngallinn og pollahlaup.
Tjóar ekki að sitjog grufla, gæskan.

15.10.09

Að lifa október af. Dagur 15.

Ég mæli með því að læra að spila allavega eitt nýtt lag sem manni finnst skemmtilegt, á eitthvað hljóðfæri. Eða læra textann af því svo maður geti raulað það fyrir sjálfan sig undir stýri.

Í gítartíma í dag lærði ég til dæmis að spila "All of me" sem er afar skemmtilegur stríðsáradjass sem kennarinn var að nota til að láta okkur læra einhver rythmatrix. Og hljómatrix. Ég er hamingjusöm í sálinni en verulega illt í báðum höndunum og fer að huxa mér til gítars með mjórri háls.

Tímir einhver að lána mér "týpískan" stálstrengjagítar með mjóum hálsi?

14.10.09

Að lifa október af. Dagur 14.

Hafði ekki tíma til að láta mér detta neitt í hug í dag.

Sökudólgar: Plat-svínaflensa (sem Freigátan var með, upphófst með heilmiklum hitahvelli í gær en lognaðist svo bara niður í nokkrar kommur í dag og er sennilega engin svínaflensa) og Barack Obama.

Veit ekkert.

13.10.09

Að lifa október af. Dagur 13.

Þá er kominn tími á jólaskapið.

Ég held að ástæðan fyrir öllu stressinu í desember sé sú að menn ætla sér allt of stuttan tíma til að jóla. Í desember þarf að vinna frammúr sér (út af öllum frídögunum) kaupa jólagjafir, gera hreint, skipuleggja jólaföt, jólamat hlusta á alla jólatónlistina í einum rykk og hafa síðan líka tíma til að skemmta sér við jólahlaðborð og jólatónlist. Þetta er náttúrulega rugl. Enda kemur yfirleitt út úr þessu stressaðasti mánuður ársins sem verður sjaldnast neitt skemmtilegur og flestir eyða jólunum sofandi eftir allt hafaríið. Ég held að það sé ástæðan fyrir jólafýlunni sem heltekur marga þegar hátíðarnar nálgast. Þessi tími er alveg ömurlegur þegar ekki er tími til að njóta hans.

Ég er að hugsa um að fara að skipuleggja jólagjafainnkaup. Þau eru skemmtileg ef maður hefur tíma í þau. Svo er líka kreppa og alveg fáránlegt að bíða með þau þangað til ofurkaupmenn eru búnir að kýla upp verðið. Í ár ætla ég líka að gaumgæfa þau vel og vandlega og sneiða hjá öllum glæpamönnum með 60% markaðshlutdeildir og afskriftir. Kaupa bækur beint frá útgefendum, annað dót helst beint frá hönnuðum eða þá frá ponkulitlum smáseljendum sem eru ekki skyldir eða tengdir Bónusfeðgum eða öðrum stórgrósserum á neinn hátt. Byrji maður snemma getur maður líka pælt vel og vandlega í því hvað stórfjölskylduna vantar/langar í. (Ásta vinkona ætti að halda námskeið á þessum tíma. Hún er sérfræðingur í að velja gjafir sem maður var búinn að gleyma að mann vantaði, en hitta ævinlega beint í mark.) Best er að klára að pakka inn áður en október er úti.

Svo er ekki úr vegi að fara að láta eitt og eitt jólalegt lag detta inn á playlistann. Ég kem ævinlega út úr jólunum án þess að hafa heyrt helminginn af uppáhalds jólalögunum mínum. (Og hafandi heyrt allt of mikið af öðrum.) Þá má flokka jólatónlistina í fyrirjóla og hájóla tónlist. Diskurinn úr Jólaævintýri Hugleiks er til dæmis næstum því ekkert jólalegur og er fínn í október. Það sama má segja um jóladiskaúrval Hraunsins, ef maður á eitthvað af þeim. Allskonar jólarokk er líka alveg fínt, núna. Og núna fer líka að koma tíminn fyrir hið árlega áhorf á The Nightmare Before Christmas. (The Muppets Christmas Carols og It's a Wonderful Life þurfa síðan að vera á dagskránni einhverntíma á árinu.)

Með þessu skipulagi ætti desember að vera laus í jólaglögg, aðventutónleika eins og menn geta í sig troðið og dúll.

Ráð dagsins er sem sagt: Að byrja að jóla!