
Erum lent í Brekkunni hvar Hraðbátur heldur áfram jóla-hungurverkfallinu og nærist eingöngu á vatni, laufabrauði og stöku kartöflu. Greinilega meðvitaður um kreppuna og reynir að vera ódýr á fóðrum. Freigátan náði að sjá einn kött undir hægindastól og síðan heilan haug í sjónvarpinu og er afar glöð eftir. Þau eru nú sofnuð. Smábátur fór til föðurhúsanna í gær með eftir-storms-flugi og Rannsóknarskip er farið út í sveit að spila póker. Við tengdó erum að láta Skjá Einn skemmta okkur.
Svo eru að koma áramót. Þegar að þeim kemur verðum við flutt í orlofsíbúð á Akureyrinni hvar við ætlum að hafa slatta af tengdafjölskyldunni á Gamlárskvöld eftir ógurlegt útsölukrús. Einhverra hluta vegna gengur mér alltaf betur að versla á Akureyri heldur en í Reykjavík (og best á Egilsstöðum.) Meira úrval finnst mér EKKI betra. Mig vantar aldrei neitt margt. Og er alin upp við að ef það fæst ekki í kuffilaginu þá þarf maður ekki að nota það. Ellllska forræðishyggju.

Nýjársmorgunn og örlög sín enginn veit!
En það tjóar ekki að lifa í eftirsjárflóði óskrifaðra Fésbókarstatusa. (Frekar en að sitja og grufla, gæskan.) Sérstaklega ekki fyrirfram.
Við hlustuðum annars mest á ýmislegt eftir áðurnefndan Braga á norðurleiðinni. Fyrst Sigurð og Memfismafíuna, Nú stendur mikið til, þá nýrri jóladisk Baggalúts og svo líka Gilligill. Aukinheldur var bragðað rækilega á Jónasi Sigurðssyni og Ritvélum framtíðarinnar. Alveg svakalega snilld þar á ferð.
Þá lýkur tónlistarumfjöllun. Er annars að lesa Takk útrásarvíkingar, hlæjandi eins og hross. Á næstu dögum ætla ég að fara með Nesböinn sem ég fékk í jólagjöf (af því að ég átti hann) og skipta honum út fyrir einhvern annan (þar sem ég á engan annan) og verð þar með horfin til reifaralands.